Paradísarvíti

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1974
Flokkur: 

Undirtitill er: Endurminningarþættir sem sjálfur hefur saman skrifað Greifinn Yon D'Islande fæddur Jón Dísland Bakka (nú Sólbakka) í Eyjafjarðarsýslu Íslandi.

Af bókarkápu:

... sagan [er] að atburðarás til sambland af alþjóðlegri glæpasögu og reisubók prakkara, með íslenzkan heimshornamann að höfuðpersónu. Tími sögunnar eru árin rétt fyrir fyrra stríð, og sögumaðurinn á skipti við ýmsa þekkta heiðursmenn: Zog I. Albaníukonung, Hitler, Vito Genovese.
Sagan er fjörlega skrifuð og víða hnyttileg. Það er mjög gaman að því, hvernig höfundur notar efni glæpareyfarans til að koma á framfæri því, sem honum hentar.

Úr Paradísarvíti:

16.

Pólitík.
Ósýnilegir vinnuveitendur.
Óskrifuð blöð.

Á margan hátt voru þetta góðir dagar, þessir síðsumardagar í Rómaborg, þegar ég var að læra til heimsmanns hjá konunni minni, sem ég alltaf kallaði Helenu, en hún sagðist heita Mut-em-enet, og hló ef maður hélt áfram að spyrja.
Hitler og Mússólíni voru menn dagsins, þótt núna geti hver skussi sannað, að þessir vitfiringar höfðu ekkert vit á pólitík - frekar en öðru. En á þessum tíma vöfðu þeir almenningi (hvað sem það nú er) um fingur sér, eins og til að sanna, að almenningur hefur ekkert vit á pólitík (hvað sem það nú er); og þeir blekktu virðulega stjórnmálamenn í öðrum löndum, sem alltaf höfðu reynt að taka sjálfa sig og lífið hátíðlega, eins og til að sanna, að stjórnmálamenn hafa ekkert vit á pólitík.
Og þá eins og nú gat enginn maður sagt fyrir um hvernig morgundagurinn mundi verða, því þá eins og nú var reiknimeistarinn sjálfur hin óþekkta stærð, og svarið við dæminu hans, aukaatriði.
Þetta voru góðir dagar, og ég reyndi eftir föngum að tileinka mér borgaralega úrkynjun í mat og drykk, og lærði merkingu orða eins og von vivant, gourmet og connoisseur. Þessi orð er ekki hægt að þýða á íslensku, því á Íslandi þótt það löngum útheimta litla snilli að eta mat, eftir að búið var að afla hans; enda hafa þeir sem gengið hafa sérstaklega gírugir til fæðunnar hlotið heldur niðrandi einkunnir, svo sem: matgoggur eða mathákur. Þetta stafar að sjálfsögðu af þeirri formúlu, sem íslendingar neyddust til að finna upp á undan öðrum evrópskum menningarþjóðum, að því meira sem einn maður etur, þeim mun minna er eftir handa öðrum. Þó skal viðurkennt, að nú loks eru íslendingar komnir á svo hátt menningarstig, að þessi formúla er að mestu gleymd.
Milli þess sem ég lærði að gera gælur við vömbina á mér og halda uppi kurteisum samræðum fór ég í minniháttar sendiferðir fyrir atvinnurekendur mína. Ég hafði ekki hugmynd um hverjir þeir voru, þótt mér dyttu í hug ýmis samtök eins og: Mafían, Frímúrarareglan, Unione Corse, páfinn fyrir hönd Kaþólsku kirkjunnar, Camorra-glæpafylkingin í Napólí, Fasistaflokkurinn eða einhver önnur hugsjóna- og/eða viðskiptasamtök.
Þessar sendiferðir þóttu mér yfirleitt ósköp ómerkilegar, en þær voru einkum farnar innanlands, og fólgnar í því, að ég var sendur með leyniskjöl á fund ýmissa aðila: iðnhölda, kaupsýsluhákarla eða pólitískra hreppsharðstjóra.
Þessi leyniskjöl, sem ég var sendur með, hafa sjálfsagt verið þéttskrifuð með ósýnilegu bleki, en einhver besta tegund þess mun vera kúamjólk. Með ósýnilegu bleki segi ég, því hefði einhver lagt það á sig að róta í farteski mínu hefði hann ekkert grunsamlegt fundið; ekkert sem hefði getað komið sér illa fyrir nokkurn mann.
Þeir sem bréfin fengu báðu mig stundum að koma daginn eftir til að taka við svari, sem þá var líka á óskrifuðu blaði, eða þá að þeir fengu mér stundum böggla, sem höfðu allt útlit fyrir að innihalda aura.
Við öllu þessu tók signor Romolo Porrella í Róm, og hafði ekki mörg orð þar um.

(s. 74-76)