Parísarhjól

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

2. útgáfa: Uglan. Íslenski kiljuklúbburinn, Reykjavík, 1999.

Úr Parísarhjóli:

Ég stend hér úti á götu, fyrir utan Liberté neðst á Gáskagötu, hef setið hér lengi dags, sit hér alla daga og vona að stúlka í fjólubláum skokk komi kannski aftur svo ég geti horft á brosið sem er enn sérstakara út af þessu hárfína öri á neðri vörinni sem gengur þvert á brosið og ég myndi segja henni að þetta gafi allt verið misskilningur ... það skipti ekki máli á ég sé ekki frá Ekvador ... nei, guð minn góður, ekki blanda Ekvador aftur í málið ... ég myndi forðast að minnast á Ekvador ... passa mig að minnast ekki á neitt sem gæti minnt mig á það, ekki neitt frá Suður-Ameríku, ekki neitt frá miðbaug; hvað með mittið á henni, var hún ekki með belti á kjólnum eða skokknum? (af hverju kalla ég þetta skokk? - ég hef aldrei notað þetta orð, var þetta ekki bara kjóll?) Var ekki belti annars, jú, það var belti, breitt belti en fínlegt, í stíl, aðeins dekkri litur á því en kjólnum sem er kannski ekkert úr móher ...
Og ég horfi út eftir götunni á skiltin og græna krossa á apótekinu blikka og blaðaturninn alþakinn blöðum og tímaritum og horfi á spegilmynd mína í reyklitaðri rúðu og sé allt í einu skýrt hvað þetta er gamalt og stefnulaust andlit, orðið miklu eldra en þrítugt að sjá, andlit manns sem hefur ekki gert neitt nema snert yfirborðið með teikningu, aldrei gert neitt nema hrært í yfirborði pappírs og yfirborði allra hluta með blýanti og sjálft er þetta andlit án teikningar og tilgangs og hárið lafir þarna efst, líflaust eins og dökkur hálmur.

(s. 65-6)