Petsamo

Petsamo eftir Arnald Indriðason
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um Petsamo

Í Petsamo, nyrst í Finnlandi, bíður ung kona eftir unnusta sínum. Þau ætla að sigla heim til Íslands með Esjunni, burt frá stríðinu sem er nýkomið til Norðurlanda, en unnustinn kemur ekki.

Vorið 1943 er heimstyrjöldin í algleymingi og mikið um að vera í Reykjavík þegar sjórekið lík finnst í Nauthólsvík. Á sama tíma verður ungur piltur fyrir heiftarlegri árás bak við hermannaknæpu við Klambratún og kona sem hefur gert sér dælt við hermenn virðist vera horfin.

Petsamo er þriðja bókin um lögreglumennina Flóvent og Thorson og samstarf þeirra í Reykjavík stríðsáranna, en þær fyrri eru Skuggasund og Þýska húsið.

Úr Petsamo

Hún stóð eins og þrumu lostin á hafnarbakkanum í þessum afskekkta og kuldalega finnska bæ við norður-íshafið og neitaði að trúa því sem maðurinn sagði. Kannski heyrði hún ekki rétt fyrir hávaðanum í fólkinu.

Farþegarnir úr langferðabílunum voru byrjaðir að koma föggum sínum um borð í Esjuna. Þeim hafði verið sagt að skipið myndi ekki hafa lengri viðdvöl í Petsamo en brýna nauðsyn bæri til en sigla um leið og farþegarnir væru komnir um borð, og fólk var beðið að hraða sér. Skipið hafði þegar tekið upp nokkra farþega í Þrándheimi á leið sinni til Finnlands, og lent í vandræðum út af Vestfjord í Noregi þegar þýskar sprengjuflugvélar flugu í veg fyrir það og fylgdu því með vopnavaldi til hafnar. Flugvélarnar höfðu hleypt af byssum sínum framan við stefni skipsins og vakti það talsverðan óhug meðal áhafnarinnar. Í fjóra daga stóð skipstjórinn í stappi við þýsk yfirvöld áður en þau viðurkenndu að mistök hefðu átt sér stað og leyfðu Esjunni að halda áfram norður, í átt til Finnlands. Hér hafði skipið beðið í nokkra daga eftir farþegunum. Enginn vildi tefja lengi í Petsamo heldur snúa hið fyrsta aftur heim til Íslands.

Áhöfnin aðstoðaði fólkið við að finna vistarverur sínar og vísaði því áfram um mjóa gangana að káetum og lestum skipsins. Mikil þrengsli voru um borð því hver fermetri skipsins var nýttur undir farþegana. Ekki aðeins voru yfirfullar þær káetur sem skipið hafði upp á að bjóða heldur þurfti að útbúa svefnpláss fyrir fjölmarga í lestunum, á göngum skipsins og jafnvel í matsalnum. Meðan á því öllu saman stóð var nýjum vistum skipað um borð og tollverðir skoðuðu í töskur og pinkla og athuguðu ferðapappíra.

- Hvað áttu við? spurði hún þar sem þau stóðu enn afsíðis frá öllum hamaganginum. Af hverju segirðu þetta ... að nasistarnir hafi tekið hann? Hvernig í ósköpunum ...?

Maðurinn sem hafði fært tíðindin af ástvini hennar í Kaupmannahöfn hristi höfuðið eins og þetta væri honum einnig með öllu óskiljanlegt.

- Mér skilst að tveir læknanemar hafi verið teknir til yfir- heyrslu. Christian Steenstrup og Ósvaldur. Annað veit ég ekki. Ég heyrði talað um þetta í læknadeildinni. Fyrst var Christian tekinn og svo náðu þeir í Ósvald og jafnvel einhverja fleiri. Þetta er það eina sem ég veit. Ég heyrði það sama daginn og við fórum frá Kaupmannahöfn. Ég hef engum sagt það, enda ... enda veit ég í rauninni ekkert hvað er til í því nema auðvitað að Ósvaldur lét ekki sjá sig ...

- Hann ætlaði með hópnum, sagði hún.

- Já. Ég veit það. Mér þykir fyrir þessu, ég vissi ekki að þú yrðir hér. Ég átti ekki von á að þurfa að flytja þér þessi tíðindi.

Hún starði á hann.

- Heldurðu að það sé öruggt? sagði hún. Að þeir hafi tekið hann?

Maðurinn yppti öxlum eins og hann hefði sagt henni allt sem hann vissi. Hún mundi eftir að hafa séð hann í læknadeildinni, gott ef hann var ekki að ljúka námi, kannski tveimur árum eldri en Ósvaldur. Hana rámaði í nafnið. Valdimar eða Ingimar, hún mundi ekki hvort var. Þau höfðu hist á samkomum Íslendinga í Kaupmannahöfn, einu sinni þegar lesið var upp úr nýjum íslensk- um bókum á vegum stúdentafélagsins og öðru sinni á jólahátíð læknadeildarinnar. Ósvaldur var með henni í bæði skiptin og sagði að hann væri ágætisnáungi.

- Hvernig get ég fengið að vita það? spurði hún og svaraði því sjálf þegar hún leit upp í brúna á Esjunni.

Hún hraðaði sér í áttina að landganginum og tróð sér í gegnum þvöguna. Þegar hún kom um borð rakst hún á háseta og bað um að fá að hitta skipstjórann. Það væri áríðandi. Hásetinn sagði henni að koma með sér og hún elti hann þvert yfir matsalinn og þaðan upp í brúna. Þeim var sagt að skipstjórinn væri í káetu sinni og hásetinn vísaði henni þangað, fram hjá loftskeytaherberginu og áfram ganginn til hægri og þá ætti hún að finna hann. Hún fylgdi leiðbeiningum hans og mætti skipstjóranum þegar hann var að koma út úr káetunni. Hún kynnti sig og hann sá strax að henni var mikið niðri fyrir. Hún sagði honum sem var, að einn farþeganna hefði ekki skilað sér til Petsamo, vinur hennar, og sér hefði borist til eyrna að hann hefði hugsanlega verið handtekinn í Kaupmannahöfn og væri í haldi nasista. Skipstjórinn skynjaði strax áhyggjur hennar og bað hana að fylgja sér. Innan stundar hafði hann uppi á loftskeytamanninum og saman héldu þau í loftskeytaherbergið. Á leiðinni reyndi hún að orða fyrirspurnina í huganum svo ekki færi milli mála um hvað hún snerist. Það vafðist fyrir henni. Hvernig átti hún að spyrja um ástvin sem nasistar höfðu handtekið? Skipstjórinn kom henni til hjálpar og þau sömdu í sameiningu skeytið til íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn:

FARPEGA SAKNAÐ. ÓSVALDUR M. HANDTEKINN Í

KAUPMANNAHÖFN? STAÐFESTIÐ. ESJAN. PETSAMO.

- Þeir ættu að svara þessu áður en langt um líður, sagði skipstjórinn hughreystandi. Ég er viss um að það er í góðu lagi með hann. Þér skuluð ekki hafa óþarfa áhyggjur. Sjáum til hvað þeir segja.

(23-5)