Plokkfiskbókin

Plokkfiskbókin eftir Eirík Örn Norðdahl
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Bókin inniheldur ríflega þrjátíu plokkfiskuppskriftir.

Úr Plokkfiskbókinni

En ég hef aldrei verið fátækur. Bara blankur. Því blankur er eitthvað sem maður getur verið tímabundið. Að vera fátæklingur er örlög. Eitthvað sem tekur árafjöld. Eitthvað sem maður þarf að berja sér leið út úr – ég flýt alltaf upp fyrir hungurmörk annað veifið, og stundum hef ég það bara mjög fínt, þótt reikningarnir séu basl. Mér finnst blankheitin alltaf vera sjálfum mér að kenna. Ég hafði aldrei á ævinni haft eins miklar tekjur og 2013 – vegna Illsku og bókmenntaverðlaunanna – en það voru heldur aldrei jafn mikil útgjöld, aðallega vegna skilnaðarins, sem fól í sér bæði mikið af flugfargjöldum og rekstur á tveimur heimilum í marga mánuði. En ég keypti mér líka mjög dýran pott. Og ég keypti mér bíl (á lánum). Og ég á Macbook Pro, snjallsíma og iPad. Ég get ekki verið fátækur. En ég skulda svo mikinn skatt og lífeyrissjóð að mig svimar við tilhugsunina um daginn sem ég fæ það í bakið. Og já það er meðal annars vegna þess að ég keypti þennan blessaða pott.

Hvenær er fátækt manns móðgun við þá sem standa þrepi neðar í stiganum? Hvenær er forréttindaleysi manns móðgun við þá sem njóta enn minni forréttinda? Hvenær er það móðgandi að hafa orð á fordómunum sem maður mætir, því aðrir mæta öðrum og verri fordómum?

Í relatífa leiknum verður þetta flókið í báðar áttir. Ég var einu sinni í jólafríi í Reykjavik að barma mér yfir blankheitum við stóra bróður minn – „ríka bróður minn“, einsog ég hef stundum kallað hann – og hann fór að tala um þetta relatífa. Hann var á leiðinni í frí til Nýja- Sjálands, til að komast úr skammdeginu á íslandi. Hann sagði að það væri alveg nauðsynlegt. Maður gæti varla lifað af án þess. Skammdegið væri einfaldlega bráðdrepandi. Hann átti vinkonu þar sem ætlaði að sjá um hann – Kiri Te Kanawa – hún ætlaði að senda eftir honum þyrlu á flugvöllinn. Og dauðskammaðist sín fyrir að þurfa að viðurkenna að hún ætti ekki þyrluna sjálf, hún væri bara með hana á leigu. Sem er auðvitað svolítið einsog að bjóða fólki í sunnudagsmat og bera svo bara fram plokkfisk. Eða gefa einhverjum eitthvað í jólagjöf sem maður fékk sjálfur ókeypis. Honum fannst hún auðvitað alveg jafn firrt að skammast sín fyrir leiguþyrlu og mér fannst það firrt að geta skroppið fyrirvaralítið til Nýja-Sjálands, bara svona rétt til að hlaða batteríin af því það er svolítið dimmt úti.

Og Mathiasi vini mínum hefði ábyggilega þótt ég firrtur, þarna með bróður mínum í jólafríinu, að kvarta undan fátækt eftir mánaðarfrí á ísafirði nýbúinn að leggja út fyrir ótal flugmiðum og lestarferðum frá Vásterás til Stokkhólms til Keflavíkur og Reykjavíkur og Ísafjarðar. Þetta kostaði ríflega mánaðarlaun fjölskyldunnar ofan í mánaðarvinnutap og var alger djöfulsins lúxus. Og Sómölunum í Myyrmaki finnst Mathias ábyggilega vera alger forréttindapjakkur – háskólastrákur í vinnu, talar bæði ríkismálin reiprennandi, þekkir kerfið, á heilsuhraust börn og fjölskyldu og vini í nágrenninu. Aumingja, aumingja hann.

Ég er kannski ekki lengur að tala um plokkfisk. En við leyfum þessu að standa samt.

(66-8)