Rauðir dagar

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Mál og menning, 1998

Úr Rauðum dögum:

Furðulegum fregnum rigndi yfir borgina.
 Hver hafði málað trén í Hljómskálagarðinum rauð, klætt styttuna af þjóðskáldinu í kjólföt, letrað klúryrði á kirkjudyr og reist ríkisstjórninni níðstöng með galdrastöfum?
 Af og til sprungu plastpokar fullir af svínsblóði við útidyr erlendra sendiráða og einn daginn upplýstist að miklar birgðir af sprengiefni væru horfnar úr verkfærageymslum og vinnuskúrum.
 Hér býr djöfull borgaranna, stóð letrað á eina stærstu kirkjuhurðina í borginni og óprúttnir náungar höfðu laumast inn í braggana við Kirkjusand og skreytt alla strætisvagnana vígorðum.
 Ragnhildur sá fregnir í dagblöðum og heyrði sögur á skotspónum en sjálf varð hún einskis vör. Það var engu líkara en næturhúmið gleypti öll atvik og skolaði þeim mannauðum út í birtuna.
 Þannig vissi enginn hver hafði hlaðið götuvígið sem íbúar við litla og fáfarna götu sáu einn morgun, þegar þeir vöknuðu, að stóð við annað götuhornið.
 Gamalt fólk greip óttaslegið fyrir hjartað og hætti sér ekki út fyrr en lögreglan var búin að senda þrjá sprengjusérfræðinga á vettvang ásamt sporhundum sem snuðruðu um nágrennið.
 Götuvígið bara stóð þarna, hlaðið úr framhliðum þriggja vinnuskúra, ónýtum ísskápum, gömlum eldavélum, ryðguðum bílhræjum og dekkjum undan dráttarvélum og þó að það væri rannsakað hátt og lágt fannst ekkert sem gaf tilefni þess til kynna, engin prentuð yfirlýsing, enginn fáni, ekki neitt.

(s. 39-40)