Refurinn

refurinn
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2017
Flokkur: 

Um bókina

Guðgeir starfar tímabundið sem öryggisvörður á Höfn í Hornafirði á meðan hann jafnar sig á áföllum í starfi og einkalífi. Líf hans hefur tekið algjörum stakkaskiptum á stuttum tíma. Áður var hann hamingjusamlega giftur fjölskyldufaðir og farsæll yfirmaður í rannsóknarlögreglunni en nú reynir hann að láta dagana líða hjá og láta lítið á sér bera.

Forvitni Guðgeirs er vakin og hann dregst inn í óvænta atburðarás þegar ung erlend kona hverfur sporlaust. Það er engu líkara en að hún hafi aldrei verið til. Inni í Lóni býr kona með fullorðnum syni sínum. Hvaða óhugnaður býr í einangruninni?

Úr bókinni

Í fluginu frá London til Íslands var hún sem hengd upp á þráð. Orð konunnar höfðu hrætt hana. Hún var líka tekin að óttast að sá framandi heimur sem biði hennar yrði henni ofviða en þegar hún tók sín fyrstu skref í nýju landi fann hún að andrúmsloftið var allt annað en á yfirspenntum flugvellinum í London. Hirumi beið hennar við útganginn. Hún hafði breyst. Var orðin feitlagin með axlarsítt hár og klæddist buxum og þykkri flíspeysu. Hlæjandi og grátandi í senn féllust frænkurnar í faðma. Sajee spurði eftir eiginmanninum en frænka sagði henni að gleyma honum því hann væri liðin tíð.
   Fyrstu dagana hélt Sajee að það væri vetur því henni var stöðugt kalt en var svo leidd í sannleika um að svona væru sumrin á Íslandi. Það var henni líka áfall að uppgötva að hún skildi aðeins fáein tákn á nýja tungumálinu. Við henni blöstu nær auðar götur og hún áttaði sig ekki á hvar allt fólkið væri. Hún sá engin dýr heldur. Þögnin var ærandi og fámennið skelfdi hana.
   Núna hafði hún að mestu vanist umhverfinu og skildi flest þótt hún talaði minna. Sumt fannst henni þó enn undarlegt eins og það hvað fólk var oft þungt á brún og kvartaði undan smáu sem stóru. Hún vissi ekki hvort þessi ávani tengdist trúarbrögðunum eða einhverju öðru en var sjálf þakklát fyrir að hafa lært að temja sér þolinmæði og æðruleysi. Það hafði oft komið sér vel. Ekki aðeins eftir að Lakmal dó heldur hafði lífið á Íslandi oft verið erfitt. Tíminn eftir að fjölskyldan sem hún vann hjá hætti að þurfa á henni að halda hafði tekið á. Hirumi útvegaði henni vinnu við að þrífa heimili en það gekk illa að fá fleiri nema í örfá skipti því svo margir spöruðu slíkt við sig eftir efnahagshrunið. En smám saman fór landið að rísa og heimilum sem þurftu á henni að halda fór fjölgandi. Auðvitað leiddist henni stundum og þá var gott að svífa í huganum heim til Sri Lanka. En þrátt fyrir viðvarandi heimþrá vissi hún sem var að þar beið hennar ekki neitt til frambúðar. Hér hafði hún þó vinnu og húsnæði. Til þess að standa betur að vígi ávkað Sajee að fara á íslenskunámskeið en gafst upp eftir nokkrar vikur. Í hópnum hennar var ólíkt fólk og þeir sem höfðu svipaðan menningarbakgrunn héldu saman. Þó var ein kona frá Sri Lanka sem mætti tvisvar en sást svo ekki meira.

(s. 24-25)