Regn á rykið : ferðaþættir og fleira

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1960
Flokkur: 


Úr Regni á rykið
:

Á leið suður

Eitt kvöld um mitt sumar geng ég með farangur minn inn á Hovedbanegården í Kaupmannahöfn og kaupi mér farmiða með næturlest til Hamborgar. Á brautarpallinum var fátt fólk. Ég stend við opinn gluggann í lestinni og rétt hjá er góðborgaraleg fjölskylda að kveðja lauk ættarinnar: ljóshærðan námsmann með hreinan svip, og hundur fjölskyldunnar var þar líka. Hundurinn er lítill og brúnn með langan og mjóan haus eins og snældu, svartgljáandi trýni, eyrum löng löfðu niður eins og til að sópa stofugólf, litlar komóðulappir, kviðurinn straukst næstum við jörðina og snögghærður skrokkurinn gljáði allur eins og blankaðir skór. Rófan á þessari verðmætu veru heimilislífsins gekk eins og nálin á geigermæli á þeim stað sem hættan leynist. Kvikindi þetta gaf ástvinum sínum til kynna tilfinningar með gjöllum skrækjum líkt og þegar gúmí strýkst við blautt malbikið við það að bifreið er snarhemlað. Faðirinn var hávaxinn maður, roskinn en ekki feitur; og andlit hans sem nú var mjúkt mætti segja mér að sýndist harðlegt í vinnutíma starfsmanna hans. Hár hans er grátt í vöngum en uppi á höfðinu gljáir skalli. Við hlið hans stendur konan ung og dökk í frammjóum ítölskum skóm, gulri kápu með svörtum deplum eins og hlébarði og lýsir af hvítum tönnum hennar, hvikandi augun blá. Þegar maðurinn sneri sér að henni tók hún fastar um handlegg hans og þóttist bara vera að hugsa um hann og brosti svo blítt til hans, kannski trúði hann því. Lítil stúlka hopppaði á öðrum fæti í hvítum stuttsokkum með ljósa lokka eins og Tómas var að yrkja um árið og skríkti framan í stóra bróður sem var að fara með lesinni.

Svo var blístrað og merkjaflöggum veifað og þeir sem eru alltaf næstum búnir að missa af lestinni fór nú að koma hlaupandi og voru næstum búnir að missa af lestinni. Þá þrýsti pilturinn hönd föður síns: tveir herforingjar sem fara hvor með sinn flokk til að vinna að sameiginlegum hagsmunu; kyssti hina fallegu stjúpmóður á kinnina eins og hún væri frænka hans, kyssti ofan í hárið á litlu systur sinni, og hundinn á trýnið. Síðan snaraðist hann upp í lestina.

Þá hætti litla systir að hoppa á öðrum fæti, tók hinn elskaða hundskratta upp og þrýsti honum að sér af viðkvæmni skilnaðarstundarinnar.

Lestin sleit sig frá þessari góðborgaralegu fjölskyldu sem stóð á brautarpallinum eitt kvöld á miðju sumri og kvaddi sinn lauk. Faðirinn studdist á staf með silfurhólk, óhaltur og frísklegur með skínandi skalla undir ljósum stöðvarinnar og veifaði hvítum vasaklút. Hans unga kona hallaði sér að honum eins og hún væri dóttir hans, skyldi hún hafa verið að hugsa um strákinn þannig eins og hún átti ekki að hugsa um strákinn? Og litla stúlkan valhoppaði með hundinn í fanginu stuttan spöl eftir lestinni sem silaðist af stað. Kvöldið var kyrrt og blátt loftið yfir gulum og rauðum múrsteinshúsabreiðum úthverfanna, og það var búið að fara í gegnum einhverjar prósaískar stöðvar sem hétu Nörreport og Österport og gott ef ekki Hellerup, svo var eins og þetta fólk hefði aldrei verið til.

(132-3)