Rökkurbýsnir

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 

Um Rökkurbýsnir

Árið er 1635 og jörðin er enn í miðju alheimsins, hólf hjartans eru tvö, fuglar klekjast úr þangi, einhyrningshorn eru eftirsótt munaðarvara og steinar þykja góðir til lækninga. Rithöfundurinn og myndasmiðurinn Jónas lærði Pálmason er dæmdur fyrir útbreiðslu galdra og sendur í útlegð í Gullbjarnarey. Skáldsagan Rökkurbýsnir byggist á lífi og hugarheimi þessa sjálfmenntaða Íslendings sem kalla má holdgerving sautjándu aldarinnar. Hér segir m.a. frá nöturlegum eftirmálum siðaskiptanna, hetjulegri niðurkvaðningu afturgöngu á Snjáfallaströnd, leynilegri Maríudýrkun, vígum baskneskra hvalveiðimanna á Vestfjörðum og hrakningum á tímum þegar náungakærleikanum hafði verið varpað fyrir róða. Á eynni rifjar Jónas upp æfi sína og lesandinn fylgir honum í stormum hjartans og hugans á tíð Rökkurbýsnanna.

Úr Rökkurbýsnum

Nú kemur til sögunnar sá samtímamaður Jónasar Pálmasonar lærða er ekki aðeins skrifaði náttúrufræðaritgerðina ,,Saga dýrs, sem dettur ofan úr skýjunum í Noregi og etur upp á skömmum tíma gras og korn landsbúa þeim til stórtjóns, heldur vann manna mest að fornfræði á fyrri hluta sautjándu aldar og nefndur hefur verið faðir norrænnar fornfræði. Hann er ef til vill hin besta ímynd vísindamanna þeirra tíma: Fjölfróður og fróðleiksfús fékkst hann við flestar greinar mannlegrar þekkingar og lét sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Og starf hans var jafnframt svo þýðingarmikið fyrir íslenskar bókmenntir, og hann átti svo mikil mök við Íslendinga, að vert er að halda nafni hans á lofti. Þessi maður er læknirinn og heimspekingurinn Óli Worm.

Þegar háskólaráðið hafði dæmt í máli Jónasar lærða Pálmasonar, miðvikudaginn fimmtánda apríl sextánhundruðþrjátíuogsjö, var sá nýsýknaði vandræðamaður sóttur í fangklefann í kjallaranum undir salnum í Konsistoríumbyggingunni og með miklu hasti fluttur í vísindahús preseptors Worm sem með eigin hendi hafði stýrt réttarhaldinu yfir honum. Voru Jónasi þanig veitt grið innan lögsögu háskólans og bjargað frá því að verða aftur settur í svartholið, þar sem hann hefði með réttu átt að dúsa þar til Kristján fjórði hefði staðfest sýknudóminn yfir honum. Er þangað var komið var farið með Íslendinginn beint í þvottaherbergi hússins. Þar voru járnin tekin af honum, hann aflúsaður gegn vilja sínum og týndar af honum flærnar og loks var hann settur í stóra pottinn sem að öllu jöfnu var hafður til að sjóða hroðann og fjaðrirnar af þeim aragrúa framandi dýrabeina og fuglshama sem doktor Worm bárust í safn sitt hvaðanæva úr heiminum. Að því þrifabaði búnu var fundinn sá karlmaður í starfsliði rektors sem helst líktist Jónasi lærða í vexti og var þeim litla kúluvamba skipað að lána aðkomumanninum hreinan alklæðnað. Er húsráðandi sneri heim til rannsóknarstofa sinna fann hann gestinn í eldhúsinu. Sat hann þar einn að mat sínum en hafði marga áhorfendur því ekkert höfðu borðsiðir hans skánað í fangelsinu. Höfðu menn af strákskap haldið áfram að bera honum veitingar löngu eftir að hann varð saddur - þeim þótti fyndið að sjá hann troða út á sér kinnarnar - en Jónas kunni sér ekki hóf eftir mánuðina í myrkrastofunni og át allt sem fyrir hann var lagt. Þótti Óla auðséð að hann væri að sprengja sig. Og urðu þannig fyrstu kynni alþýðufræðingsins Jónasar Pálmasonar og háskólaborgarans Óla Worm nokkuð nánari en sá síðarnefndi hafði hugsað sér. Lét hann bera sárþjáðan manninn til sömu sjúkrastofu og hann notaði til að skoða og græða heldrafólk Kaupmannahafnar, og þar sem allt góðgætið sat fast í sjúklingnum ordíneraði læknirinn bæði uppsölulyfi og setti honum stólpípu. Eftir þær átakamiklu losunaraðgerðir neyddist hinn hnöttótti til að lána Jónasi annan alklæðnað og þar sem Jónas fann aftur til sárrar svengdar var honum borinn meiri matur, en sú máltíð fór fram undir vökulum augum vísindamannsins.

Í bítið næsta dag var Jónas lærði kallaður inn á kontór Óla Worm. Þar komst hann að því að það var ekki af gæskunni einni saman að honum var bjargað frá frekari vist í Bláturni. Jónas var ekki fyrr sestur andspænis velunnara sínum en hann hóf að leggja fyrir hann spurningar um aðskiljanlegustu mál en helst rúnir og annan heiðinn fróðleik úr sögum hinna gömlu Íslendinga: ,,Segið mér frá haugbúaletri?; ,,Hver var Bragi?; ,,Hvað merkir fúþark?. Gerðist Jónas þá var um sig, þóttist ófróður um þessi mál og ekki skilja spurningarnar þótt Óli mælti á dönsku, eða hann svaraði út í loftið ,,jamm og jæja, og stundum ,,ojæja. Gekk á þessu japli, jamli og fuðri fram undir hádegi. Þá var séra Pálmi Guðmundur sóttur út í bæ og útskýrði hann fyrir föður sínum að áhugi Óla á fornesku væri fræðilegur og ekkert sem hann segði innan háskólaveggjanna yrði notað gegn honum. Jónas trúði honum mátulega. En séra Pálmi Guðmundur hafði einnig með sér farangur Jónasar; liti, hnífa, bækur og blöð - og geirfuglinn sem hann hafði fóstrað um veturinn. Varð safnarinn frábærlega glaður að fá lifandi eintak af þessum fræga furðufugli og faðmaði hann gefandann að sér og kyssti mörgum kossum. Bað Óli Jónas afsökunar á að hafa dembt sér yfir hann óviðbúinn en hann hefði verið orðinn svo spenntur að hitta Íslendinginn fróða í eigin persónu að hann réð ekki við sig. Sýndi hann Jónasi svörin við þeim fjölmörgu bréfum sem hann hafði skrifað samlöndum hans til að spyrjast fyrir um hann, en séra Pálmi Guðmundur sneri þeim úr latínuninni fyrir sjálft viðfangsefnið. Þar sagði meðal annars Magnús í Laufási: ,,Eftir því sem ég hef heyrt mun nú færast til yðar sá maður sem er okkar allra besti rúnafræðingur en hefur hlotið þungan dóm fyrir galdrakonstir, og hefur mér skilst að það verði á skipi Rosenkrantz hirðstjóra. Með hann þér við hlið geturðu fengið munnleg svör við þeim punktum sem óljósir virðast í lestrinum og ef þig lystir geturðu hjá honum ,,safnað gulli af skarnhaug Enníusar. Nafn mannsins er ,,Jónas Pálmason, kallaður lærði, og eftir því sem mér er sagt fróður um marga hluti. Stóð Jónas á tánum að loknum lestrinum. Varð úr að hann samþykkti að vera áfram húsaður hjá doktor Óla, en séra Pálmi Guðmundur hvarf aftur að undirbúningi varnarinnar við væntanlega dómtöku sinnar eigin sýknubeiðni.

(124-8)