Rússneski þátturinn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Birtist í 2. bindi tímaritraðarinnar 1005 árið 2014.

Úr Rússneska þættinum:

Hin stutta atburðarás

Útsýnið er yfir höfnina, og um það bil helming borgarinnar, er ekki síður fallegt á kvöldin eftir að dimmir, en á daginn þegar bjart er. Það er þó ekki alltaf bjart á daginn. Ég fékk að finna fyrir því morguninn sem ég kom til borgarinnar; þá skall á þrumuveður með eldingum. Ég er auðvitað ekki vanur slíku veðri þar sem ég á heima.

Ég var settur í herbergi á fjórðu hæð hótelsins, þeirri efstu, ef frá er talin fimmta hæðin, sem þó er varla hæð í sama skilningi og þær fyrir neðan, heldur einungis eitt herbergi, í mesta lagi lítil stúdíóíbúð, en án efa dýrasta vistarveran í húsinu. Herbergið mitt er annars býsna stórt, ég myndi giska á tuttugu og fimm til þrjátíu fermetrar; og svalirnar, þaðan sem maður nýtur þessa fína útsýnis, eru ekki minni en tíu fermetrar.

Það sem gleður mig ekki síst við hótelið er að niðri í móttökunni eru dagblöð á hinum og þessum tungumálum. Þegar ég næ mér í tvö blöð fyrsta morguninn, til að hafa með mér upp í herbergi þar sem ég drekk kaffið – eitt blað á ensku og annað á því máli sem talað er hér um slóðir – þá ávarpar stúlkan í móttökunni mig á síðarnefnda tungumálinu, hennar eigin máli, og þegar ég svara henni á sama tungumáli (sem ég kann eitthvað örlítið í, ekki mikið) heldur hún áfram, og ég verð pínulítið upp með mér yfir því að geta tjáð mig og skilið þetta fallega tungumál.

Reyndar fer svolítið glansinn af þessu þegar kemur að því að ég þurfi að nota þátíð. Þegar stúlkan gerir sér grein fyrir að ég kann ekki eins mikið í málinu og leit út fyrir í fyrstu, þá skiptir hún yfir í ensku; og ég læt hana vita, ósköp kurteislega (og á hennar eigin tungumáli) að ég megi ekki vera að þessu. Eftir á að hyggja er það ekki mjög sannfærandi hvernig ég afsaka mig. Ég veit hins vegar núna að það er kominn tími til að skipta yfir í þátíð í þessari frásögn , því það sem gerist – það sem fellur undir yfirskriftina „Hin stutta atburðarás“ – er í raun svo afskaplega mikil þátíð að nútíð fer því ekki sérlega vel.

(v-vi)