Saga af Frans litla fiskastrák

Höfundur: 
Útgefandi: 
Ár: 
1976
Flokkur: 

Úr Saga af Frans litla fiskastrák:

Þetta rifjaðist upp fyrir Frans litla, meðan hann horfði á stóra bobbann mjakast til í mölinni. Gæti skeð, að beitukóngurinn, sem eitt sinn hafði búið í þessum bobba, væri orðin að draugi? Frans var bæði orðinn felmtraður og forvitinn og til öryggis fikraði hann sig fram í skútann. Kannski hafði grásleppukerlingin rétt fyrir sér í því, að móður hans gæti skjöplast. Allt í einu kom rauðleit löpp í ljós undan bobbanum. Síðan kom önnur og þriðja. Hvað var að tarna? Frans litli glápti dolfallinn á hverja löppina á fætur annarri koma út undan bobbanum. Hve margar ætluðu þær að verða, og hver átti þessar lappir? Víst var, að ekki var hér fiskur á ferð og því síður beitukóngur, hvorki lífs né liðinn. - Fjórar, fimm, sex, sjö, átta, taldi Frans. - Vá! Átta lappir komnar. Skyldu þær ætla að verða fleiri? hugsaði Frans og beið í ofvæni. En . . . nei, ekki virtust fleiri á ferðinni, enda komið yfrið nóg af löppum. Svo var engin hreyfing merkjanleg dálitla stund. Frans fór því að færa sig nær og nær, og brátt rak hann nærri því snjáldrið í bobbann. Hvaða fyrirbrigði er þarna á ferð, hugsaði Frans. Ætti hann kannski að velta bobbanum við? Nei, hann áræddi það ekki. En nú fór eigandi hinna átta fóta að hreyfa sig á ný. Með helmingnum af löppunum spyrnti hann í sandinn, en með hinum helmingnum reyndi hann að lyfta undir bobbann. En sandurinn var laus og þess vegna gerðst lítið. - Á . . . á ég að aðstoða yður, herra? stamaði Frans litli. Hann var vænn þyrsklingur og kurteis, þótt órabelgur þætti heima hjá sér. - E - pú, e - pú, heyrðist undan bobbanum og allir fæturnir hömuðust í jötunmóð við að reyna að koma eiganda þeirra þaðan á braut. - Ætlarðu ekki að losna undan bobbanum? spurði Frans og hallaði undir flatt, til að heyra betur tuldrið undan bobbanum. - O, jú, jú, víst er svo. En ótætis sandurinn er svo laus, að ég hjakka alltaf í sömu förunum, e - pú. - Ég skal hjálpa þér! kallaði Frans litli og ýtti með öðrum eyrugganum á bobbann, svo hann valt. Þá kom í ljós dálítill krabbi, bleikrauður á lit með fjólublá tindrandi augu.

(s. 11-12)