Sagan af Daníel II : Vetur og vorbláar nætur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Sagan af Daníel II : Vetur og vorbláar nætur:

Daginn eftir hafði námið byrjað, allt í föstu formi frá upphafi, undir stjórn maddömu Blákápu. Hún hafði vakið þau á morgnana, þau þvegið sér, búið um og sópað. Að því loknu farið niður í eldhús og tekið lýsi, borðað hafragraut og slátur. Eftir þessi morgunverk hófst námið. Það hafði staðið fram að hádegi, með tíu mínútna frímínútum. Eftir hádegisverð voru allir sendir út ef veður leyfði og farið í leiki. Aftur skóli, þá miðdegiskaffi, lært undir næsta dag, kvöldverður og leikir um stund, síðan búist í háttinn. Oft hafði verið galsi á ferðum, rétt eins og Kveld-Úlfur væri laus og maddama Blákápa oft þurft að skakka leikinn. Hún hafði alltaf staðið í þess háttar, presturinn sjaldan. Sennilega alltaf verið að lesa og búa til ræður inni á skrifstofu. Þó hafði aldrei verið messað þann tíma er þau dvöldu á Staðardal, utan einu sinni að jarðsunginn var gamall maður úr dalnum. Kistan flutt í kirkjuna nokkrum dögum áður og þeir krakkarnir látnir syngja meðan kistan var borin inn. Maddaman hafði spilað með einum fingri eða tveim og Nonni sungið rosalega hátt. Á eftir hafði séra Björn sagt að hann ætti að fara til Ítalíu, til að læra að syngja. Er ró færðist yfir eftir háttatíma, hafði heimþráin gert vart við sig. En þar sem hann hafði þekkt hana svo lengi, tók hann henni með meira jafnaðargeði en hinir krakkarnir. Hafði, þó yngri væri, öðlast vissan þroska umfram þá. Hvort sá þroski myndi skila honum fram á veginn vissi hann ekki – bara örlagadísirnar er sífellt spunnu vef sinn og notuðu allt fólk veraldar í hann, til að gera hann sem margslungnastan.

(s. 88)