Sagan af sjóreknu píanóunum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Úr Sögunni af sjóreknu píanóunum:

Skömmu áður hafði hún kynnst Jóni móðurafa sínum. Það kann að hljóma undarlega þar sem hann hefur áður komið hér við sögu en sannleikurinn er sá að tvær manneskjur geta þvælst árum saman hvor í námunda við aðra áður en kynni takast með þeim.
Það gerðist hvorki fyrir undarlega tilviljun né hófst með æsilegum atburði. Jón stóð einfaldlega einn daginn, skömmu eftir hádegi, í gættinni á svefnherberginu þar sem Sólveig og Hildur voru að borða epli og lesa. Hann horfði hugsandi á Sólveigu og spurði hvort hún gæti komið út í skúr að saga.
Það var hversdagsleg bón. Kunningi hans færði honum reglulega heilu hlössin af rekaviði. Jón hafði komið fyrir rafknúnu sögunarhjóli í bílskúrnum, gott ef hann smíðaði það ekki sjálfur úr vélaafgöngum, og notaði það til að búta drumbana niður í girðingarstaura sem hann síðan seldi í versluninni.
Sólveig vissi ekki á hvers fjörur viðinn hafði rekið en hans vegna eyddi hún löngum stundum með afanum í bílskúrnum. Hann lyfti trénu upp á borðið, ræsti sögunarhjólið sem snerist í miðju borðinu og ýtti á eftir drumbnum sem gat verið á þykkt við mannsbúk. Hún togaði á móti og sagið gekk yfir þau. Ýmist ýtti hún helmingunum aftur yfir borðið til að afinn gæti rennt þeim öðru sinni í gegnum hjólið eða, ef þeir voru mátulega grannir, lagði þá í staurastaflann á gólfinu. Síðan mokaði hann saginu í stóra plastpoka.
Svona var það vant að vera en þennan tiltekna sumardag var ýmsu háttað á annað veg. Til að mynda var afinn ekki rólegur og utan við sig eins og hann var vanur, heldur leit helst út fyrir að hann þjáðist af sviðsskrekk. Hreyfingar hans voru rykkjóttar og auðheyrt var að hann var þurr í munninum.
Þau höfðu aðeins sagað í hálfa klukkustund þegar hann slökkti á mótornum og hann fór ekki inn á meðan hún mokaði saginu. Hann settist á staurastaflann og fór að segja henni frá skógarhöggi í Rússlandi og Finnlandi. Trjábolunum sem fleytt var niður fljótin, niður í byggð þar sem voru sögunarmyllur, eða líklega hétu þær ekki lengur myllur heldur plankaverksmiðjur. En það var aukaatriði. Aðalatriðið var að alltaf sluppu einhver tré til sjávar og velktust í hafstraumnum þar til þau voru gripin af íslenskum fjörðum og vogum. Sólveig skynjaði erótíkina í þessu öllu þótt hún hefði ekki hugmynd um það. Þegar hún snerti drumbana var það næstum því það sama og að taka í höndina á rússneskum skógarhöggsmanni, en hún hélt að straumurinn í lófanum stafaði af því hvað viðurinn var hrjúfur.
Ósennilegt verður að telja að sú hafi verið meðvituð ætlun hans en engu að síður var þetta meistaralega að farið. Margreyndur flagari hefði ekki getað gert betur. Nú var hann sem sagt búinn að fylla stelpuna af rómantík einfaldleikans í alheimslegu samhengi með skógum og úthöfum og gera þannig opna og móttækilega. Þá og ekki fyrr en þá lagði hann á borð fyrir hana ævistarf sitt og ástríðu.

(s. 200-202)