Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Útgefandi: 
Staður: 
Keflavík
Ár: 
1969
Flokkur: 


Úr Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann:Yngvi Jón hafði komið til þorpsins fyrir rúmum mánuði, ráðinn kennari. Þorpið stóð við ströndina, fjarri fjöllunum. Þetta var miðlungi stórt þorp, og fólkið lifði meðal annars á því að salta, þurrka og frysta fisk handa svöngum mönnum í útlandinu, rétt eins og hvurt annað venjulegt fólk í hérlendu sjávarplássi. Þetta þorp átti sína máttarstólpa, eins og önnur þorp og ekkert þorp getur án verið, svo sem kaupfélagsstjóra, prest, rútukarl, flugmann, skólastjóra, útgerðarmann fasteignarsala, sparisjóðsstjóra og bankastjóra, því ekkert þorp á landinu gat verið þekkt fyrir að eiga ekki banka auk sparisjóðs, þó ekki væri nema til að viðhalda jafnvægi í peningamálum dreifbýlisins. Eitt sinn hafði þetta þorp meira að segja átt sitt eigin skáld, en það taldist reyndar ekki til tekna í þann tíð. En nú var það dautt og frægt og búið að reisa af því standmynd fyrir framan símstöðina, og þangað söfnuðust vængjaðir fuglar þorpsins að drita, einkum í austurátt.Ennþá er þó óupptalið það sem veitti þorpsbúum mestan fögnuð og var grundvöllurinn að stolti þeirra og huggun í hörmum. Þeir voru Útverðir Atlantshafsins, Kletturinn Í Norðrinu, Sá Hlekkur Sem Sízt Mátti Bresta Í Keðju Hinna Vesturheimsku Þjóða, skammstafað S.H.S.S.M.B.Í.K.H.V.Þ.Til alls þessa höfðu þeir léð sjálfkjörnum fulltrúum friðar í heiminum landskika, skammt utan við sjálft þorpið. Þeir gátu því verið rólegir og öruggir þótt ýmsar blikur væru á lofti í heiminum, þeir höfðu sinn eigin her, sinn friðarher.(s. 16-17)