Sendiherrann

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina:

Sagan af  íslenska ljóðskáldinu Sturlu Jóni Jónssyni lýsir glímu hans við hinn miður ljóðræna raunveruleika, en einnig baráttu hans við glæpamanninn sem býr í okkur öllum. Hinn menningarlegi sendiherra lands síns þarf að bregðast við óvæntum áföllum á erlendri grund, en einnig gleðilegum eins og kynnunum af skáldkonunni Liliyu Boguinskaia, og hann þarf að kljást við þá ógn sem hans eigin sköpun hefur í för með sér – þau þungu sannindi að til að vera við sjálf þurfum við að stela frá öðrum.

Úr Sendiherranum:

Hann gengur léttstígur niður tröppurnar. Honum líður vel. Eins og alltaf á hótelum upplifir hann mjög sérstaka frelsistilfinningu sem hann tengir ósjálfrátt fyrstu utanlandsferðum sínum og jafnvel útilegum á unglingsárunum Hið leigða herbergi gefur jafnan fyrirheit um að þar muni eitthvað óvænt eða spennandi gerast, en það gerir eigið húsnæði sjaldnast. Jafnvel bletturinn á teppinu gerir herbergi númer 304 á Ambassador Hotel á einhvern hátt meira spennandi, meira framandi – honum dettur meira segja í hug orðið hættulegra, en brosir með sjálfum sér og hugsar á því augnabliki sem hann kemur niður á fyrst hæðina:
Nei, Sturla Jón, blautur blettur í hótelteppi gerir herbergið ekki hættulegt!
Rauðhærða stúlkan í móttökunni þrýstir símtóli að eyranu með öxlinni og virðist óttaslegin á meðan hún blaðar í pappírum á borðinu. Hún gefur sér þó tíma til að brosa við Sturlu þegar hann gengur framhjá, og honum finnst sem snöggvast eins og hann þurfi að staldra við og svara brosi hennar á einhvern hátt. Hann er kominn að glerdyrunum að kaffiteríunni þegar hann snýr við og gengur upp að móttökuborðinu. Stúlkan, sem hann sér núna á nælu sem hún ber í dökkbláum jakkanum að heitir Elena, gefur honum merki með útréttri hendinni um að hún muni aðstoða hann rétt strax, og á meðan Sturla bíður lítur hann yfir úrval alls kyns bæklinga í eins konar plastvösum á veggnum gegnt móttökunni. Hann hefur valið sér þrjá bæklinga til að taka með sér þegar sú rauðhærða nefnir nafn hans, Mr. Jonson. Hann snýr sér við, og stúlkan, sem hefur fjarlægt símtólið frá eyranu, spyr Sturlu hvort hún geti hjálpað honum með eitthvað. Hann byrjar á því að afsaka sig fyrir að vera trufla hana og heyrir síðan sjálfur hversu heimskulega hann hljómar þegar hann spyr hvort hægt sé að fá kaffi „þarna inni“, og bendir í átt að kaffiteríunni.
(141-142)