Úr Síðustu hugmyndum fiska um líf á þurru:
Næturvakt á botni geimsins
(Safnverðinum berst vængur)
Mitt um nóttina
Einn í glerskápasalnum
við flokkun og skráningu
mislangfleygra fiðrilda undir
síhækkandi eintali flóðsins
á rúðunni þegar
telextækið rymur ofurlágt
frammi í rökkvuðum jafnþrýstiklefanum
- og lítur upp, hlustar; nei ekki
neitt (sjálfsagt bara rafboð)
en heyrir þá þrusk eins og
eitthvað falli létt í gólfið og
stendur upp, gengur ákveðinn fram,
kveikir á gömlu perunni:
Við lífþéttar útidyrnar umslag
spunnið úr silki, með nafni hans
sjálflýsandi upphafsstöfum!
Opnar það gulnuðum fingrum
og innan í himinblár vængur,
þrykktur grænu ljósi:
STUNDIN ER KOMIN
Hvaða stælar þetta? Hann
slær frá bröndum, sviptir
upp hurðinni - sér:
Ekkert regn, heiðskír
himinn kvikur af geislandi englum!
Heyrir snöggan þyt
og fimlega gripinn í eldriðinn
háf og hafinn upp
í glerstjörnusal
til skráningar
(s. 39-40)