Sigrún í Nesi

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1964
Flokkur: 

Úr Sigrúnu í Nesi:

Hún var 10 ára. Foreldrar hennar komu henni fyrir til náms í Barnaskólanum á Fossi. Fyrsta daginn þar þekkti hún engan og dró sig því í hlé, feimin og vandræðaleg, meðan hin börnin léku sér dátt. Nokkrir strákar komu til hennar, þar sem hún stóð einmana fyrir utan barnahópinn, stríddu þeir henni, ertu hana og uppnefndu, en slíku var hún algerlega óvön. Tárin leituðu fram í augu hennar, og hún vissi ekkert, hvað hún ætti af sér að gera. Þá kom drengur alveg óvænt í hópinn. Og hve hún man enn vel bjarta, djarfmannlega svipinn hans, þegar hann sagði við strákana, sem voru að stríða henni: - Að þið skulið ekki skammast ykkar, strákar, að veitast að ókunnu telpunni og stríða henni! Við skulum heldur leika við hana, svo að henni leiðist ekki. Strákarnir urðu sneyptir og skömmustulegir og tíndust burt smám saman. En drengurinn kom til hennar og rétti henni höndina. - Ég heiti Sverrir Karlsson, sagði hann. - Ég heiti Sigrún Björnsdóttir, svaraði hún feimin. Hann brosti. - Viltu ekki koma í stórfiskaleik? - Ég kann hann ekki. - Þá skal ég kenna þér hann. Svo tók Sverrir í hönd hennar á ný og leiddi hana til hinna krakkanna. Og eftir það stríddi henni enginn þeirra. Þetta voru þeirra fyrstu kynni. Endurminningarnar halda áfram að birta Sigrúnu ótal fleiri myndir frá skóladögunum á Fossi. Alltaf var Sverrir beztur og sjálfkjörinn foringi hinna krakkanna. Síðasta prófdaginn hans í skólanum fengu Sigrún og hann jafnháa aðaleinkunn. Hinir krakkarnir stríddu Sverri og sögðu: - Óttalegur aumingi ertu að láta stelpuna, sem er tveimur árum yngri en þú, ná þér. Enn man hún, hve hann roðnaði. En hann gekk til hennar, rétti henni höndina og sagði um leið: - Ég óska þér til hamingju með einkunnina þína, Sigrún mín. Þú ert miklu duglegri að læra heldur en ég, og ég get vel unnt þér þess. Síðan hættu krakkarnir að stríða honum með próf-einkunninni.

(s. 6-7)