Sjúkrahússlæknirinn

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1965
Flokkur: 

Úr Sjúkrahússlækninum:

En hvað var honum svona sérstaklega minnisstætt frá þessari hversdagslegu sjúkravitjan? Hvað hefir þetta stutta ferðalag í hið ókunna þorp skilið eftir í sál hans, sem þar hefir verið óþekkt áður? Í djúpi hugans sér hann nú svo undur skýrt stórar dyr opnast og unga ókunna stúlku standa fyrir framan sig í dyrunum. Ljósgullið hár og mikið bylgjast frjálst um axlir hennar og herðar, augun sem mæta honum eru djúp og blá, andlitið bjart og fíngert, svipurinn heiður og hreinn eins og á saklausu barni, og ef til vill er það heiðríkjan og sakleysið í hlýjum, örlítið angurblíðum svip þessarar ókunnu stúlku, sem skýrast er mótuð í vitund hans, þótt myndin sé þar öll skýr. Já, svo skýr, að hann skilur það ekki sjálfur. Hann hefir mætt mörgum fögrum konum bæði hér heima og erlendis, en mynd engrar þeirra hefir fest hinar minnstu rætur í huga hans né vakið hjá honum neinar kenndir, allar hafa þær verið honum óviðkomandi. En mynd þessarar litlu látlausu stúlku í dyrum gamallar verbúðar í ókunnu sjávarþorpi, sem aðeins ræddi við hann örfáar mínútur og vísaði honum rétt til vegar, fylgir honum nú eins og hlýr og bjartur geisli í ljúfri endurminningu á þessum sólheiða vetrarmorgni. Hann skilur þetta ekki þrátt fyrir sína miklu þekkingu á manninum.

(s. 16-17)