Skuggamyndir úr ferðalagi

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008


Af bókarkápu:

Ljóðskáld leggur land undir fót, ferðinni er heitið á vettvang liðinna atburða, til móts við horfinn tíma og gengnar kynslóðir. Smámyndir úr veruleikanum og fortíðinni raðast saman í áhrifamikla ferðasögu í tíma og rúmi, ljóðræna minningabók og ættarsögu í brotum.


Úr Skuggamyndum úr ferðalagi:

Rakarastofan

Snemma morguns eru þeir sestir við spil, Magnús og Andrés rakari í Hafnarfirði. Stofan er í kjallaranum í Hótel Hafnarfirði svo það er ekki langt fyrir Magnús að fara sem sjálfur býr uppi í risinu. Oftast spila þeir póker, stundum upp á peninga. Þeir sitja bak við svart tjald sem hangir fyrir smákompu baka til á rakrarastofunni. Andrés hefur hellt upp á kafi og tóbaksreykur berst út um rifu á tjaldinu og liðast um stofuna. Einbeitnin skín úr svip þeirra; spilamennskan er alvörumál. Beri við að krakki slæðist inn a stofuna til að biðja um krónuklipingu meðan þeir félagar eru í miðjum póker, er Andrés vanur að svara heldur höstuglega: ,,Ég hef engan tíma núna, komdu þér heim, greyið mitt, og láttu hana mömmu þína klippa þig.

_____


Fótboltameiðsl

Hafnarfirði 26. des 1938

Heiðraði vinur.

Svo bar til haustið 1920, að jeg varð fyrir hnaski í knattspyrnu, og fjekk af því heilahristing, eða eitthvað í þá áttina. Jeg var leiddur út af vellinum, og vegna þess að jeg var sýnilega ekki með réttu ráði var skotið undir mig bíl og mjer ekið heim. Á heimleiðinni var jeg að rifja upp ýmislegt sem fallið hafði í gleymsku við þetta tækifæri, svo sem það hvað jeg eiginlega hjeti og hvar á hnettinum jeg ætti heima en auk þess hljómaði einhversstaðar innan í mjer lag, eða brot úr lagi, sem jeg hafði nýlega heyrt - danslag var það víst - og í þessu lagi heyrði ég klukknahljóm. Minnið komst í samt lag á skammri stundu, en klukknahljóðið heyrði jeg við og við allt til jóla. Þá varð úr því kvæðið Jólaklukkur.

(Upphaf á sendibréfi frá Magnúsi til ónefnds vinar.)

(88-9)