Sláturhús fimm eða Barnakrossferðin : skyldudans við dauðann

Sláturhús fimm eða Barnakrossferðin : skyldudans við dauðann
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Slaugtherhouse-five á íslensku. Höfundur er Kurt Vonnegut.

um bókina

Billy Pilgrim, stríðsfangi í sláturhúsi í Dresden, lifir þar einhvern skelfilegasta hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar - loftárásirnar á Dresden þegar um 135 þúsundir óbreyttra borgara voru drepnar.

Þessi sami Billy Pilgrim er numinn á brott af hinum smávöxnu íbúum Tralfamadore, sem er ein af reikistjörnunum. Tralfamadorar hafa hann til sýnis nakinn í dýragarði ásamt hinni fögru kvikmyndaleikkonu Montönu Wildhack. Þeir vilja horfa á hvernig jarðarbúar maka sig.

Loks kemst þessi ferðalangur í tímanum í skilning um eðli dauðans (og lífsins) og snýr aftur til jarðarinnar til að veita jarðarbúum hlutdeild í sínum mikilsverðu uppgötvunum. 

úr bókinni

  Heyriði:
   Billy Pilgrim er laus úr viðjum tímans.
   Billy hefur farið að sofa sem elliær ekkjumaður og vaknað á brúðkaupsdaginn sinn. Hann gengur inn um dyr árið 1955 og kemur þá út um aðrar árið 1941. Hann snýr við og gengur til baka í gegnum dyrnar og þá er komið árið 1963. Hann er búinn að sjá fæðingu sína og dauða margsinnis, segir hann, og skreppur alltaf við og við inn í alla atburðina þar á milli.
   Segir hann.
   Billy er spastískur í tímanum og ræður engu um það, hver hann fer næst, og þessi tímaferðalög eru alls ekki alltaf skemmtileg. Hann er haldinn stöðugri sviðshræðslu, því hann veit aldrei í hvaða þætti lífs síns hann á að leika næst.
   Billy fæddist árið 1922 í Ilium í New York, einkasonur rakara þar. Hann var asnalegt barn og varð asnalegur unglingur, hávaxinn, í laginu eins og kókflaska. Hann lauk námi frá gagnfræðaskólanum í Ilium sem sjötti hæsti í tuttugu manna bekk og fór á kvöldnámskeið í Gleraugnafræðiskólanum í Ilium eina önn, áður en hann var kallaður í herinn í síðari heimsstyrjöldinni. Faðir hans lést af völdum voðaskots í veiðiferð meðan á stríðinu stóð. Það gengur svona.
   Billy var í landgönguliðinu í Evrópu og var tekinn til fanga af Þjóðverjum. Eftir að hafa lokið herþjónustu með sóma árið 1945, hóf Billy nám að nýju við Gleraugnafræðiskólann í Ilium. Síðasta námsár hans þar trúlofaðist hann dóttur stofnanda og eiganda skólans og fékk einnig vægt taugaáfall.
   Hann var lagður inn á spítala fyrir fyrrverandi hermenn, nærri Lake Placid, og fékk raflost nokkrum sinnum, en var síðan útskrifaður. Hann giftist heitkonu sinni, lauk námi og tengdafaðir hans kom undir hann fótunum í gleraugnabransanum. Ilium er góð borg fyrir gleraugnasérfræðinga, vegna þess að þar hefur Almenna málmsteypu- og smíðafélagið aðsetur. Öllum starfsmönnum þess er skylt að eiga öryggisgleraugu og nota þau, þar sem framleiðslan fer fram. A.M.S.F. hefur sextíu og átta þúsund starfsmenn í Ilium. Þess vegna er mikil eftirspurn eftir gleraugum og umgerðum.
   Billy varð ríkur. Hann eignaðist tvö börn, Barböru og Róbert. Þegar fram liðu stundir giftist Barbara ungum gleraugnasérfræðingi og Billy kom undir hann fótunum í bransanum. Róbert var vandræðagepill í skóla, en svo gekk hann til liðs við hina frægu Grænhúfuhersveit. Hann hljóp af sér hornin, varð mesti myndarmaður og barðist í Víetnam.
   Snemma árs 1968 leigði Billy flugvél, ásamt hópi starfsbræðra sinna, og átti hún að flytja þá á alþjóðaráðstefnu gleraugnasérfræðinga í Montreal. Vélin hrapaði nálægt tindi Sykurrunnafjalls í Vermont. Það létust allir nema Billy. Það gengur svona.

(23-24)