Slóð fiðrildanna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999
Flokkur: 

Úr Slóð fiðrildanna:

Við komum til Íslands klukkan níu í fyrramálið. Ég tek þeirri frétt með blendnum huga, fegin því að losna úr þessum hvimleiða hópi, en kvíði endurkomunni.
  Hvað hef ég við hann að segja? Orð mín verða aldrei annað en eftirmáli, honum ekki til framdráttar á nokkurn hátt. Hvað ætli hann viti um mig? Hvað ætli hann vilji vita um mig? Sem minnst, gæti ég trúað.
 Til hvers að vera að þessu? spyr ég sjálfa mig og hlusta á haustlegan regnslátt á glugga. Til hvers? Ég þarf að fá mér frískt loft.
 Einhver segist hafa séð tvo máva fljúga framhjá rétt í þessu. Ég geng út á þilfar og þykist sjá í hvítan væng í mistrinu, hvítan væng sem breytist svo í ljósdíl og hverfur. Ég hef hugboð um sker í þokunni og þang á skerinu og kópa að klifra upp á það. Hvers vegna veit ég ekki. Hugsanir mínar eru á flökti. Mér finnst ég ekki ráða við þær.
 Trúðarnir bíða kvöldsins í spariklæðunum, búnir að raka sig og slá ilmspíra á kinnarnar, vatnsgreiddir með fordrykk í hendi, brosmildir og sællegir eins og sniglar í rökum mosa. Þeir eru lausir við allar efasemdir og hugarvíl, laga bindið í fjórða sinn, líta í spegil og horfa á sjálfa sig bera drykkinn að vörum.
 Konurnar eru eflaust ennþá að púðra á sér nefið því það þarf að vanda allan undirbúning fyrir síðustu kvöldmáltíðina. Á morgun tekur hversdagsgráminn við, sigin ýsa og soðnar kartöflur, barnsgrátur um nætur en tómleiki á daginn, sjerrí í laumi undir kvöld til að slá á drungann. Hjólin halda áfram að snúast í gangvirkinu og klukkurnar mæla skilmerkilega sérhvert skref í átt að endalokunum. Stundum fær einhver stöðuhækkun og þá er slegið upp samkvæmi. Aðalbókari, segir konan við vinkonur sínar og horfir aðdáunaraugum á eiginmanninn sem bregður fyrir sig lítillæti þótt hann viti að hann eigi stöðuna skilið. Eftir öll þessi ár. Allt stritið öll þessi ár.
 Það er verið að spila póker í reyksalnum þegar ég kem inn aftur. Hallgrímur lærði er kominn á flug, fyrsta glasið búið að lyfta sálinni úr doða timburmanna. Hann virðist muna síðustu orðaskipti okkar og forðast að líta í áttina til mín.
 Gott kvöld, madam! segir félagi hans. Má ekki bjóða þér að slá í slag?
 Mér verður hugsað til Anthonys.

(s. 196-197)