Smáræði

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1965
Flokkur: 
Úr Smáræði

Til vitans [brot]

Snöggbjartir glampar vitans skullu með járnharðri hrynjandi á öldutoppunum sem hverfðust í trylltum dansi á marborðinu. Öldurnar köstuðu án afláts frá sér geislunum sem voru í þann veginn að festast við þær. Síðan bárust þær uppí björgin með fáránlegum fettum og brotnuðu þar í froðufellandi sjálfsþótta. Það var engu líkara en náttúran væri að veita þessum ærslafullu dansmeyjum eftirminnilega ráðningu með því að lemja þær hörðum klettum.
 Ungur maður gekk hrösulum skrefum eftir grýttri slóðinni útá tangann - í átt til vitans. Öskur hafsins fylltu eyru hans. Skýin feyktust um himinhvelið einsog tjöld fyrir opnum glugga. Þegar þau fuku frá glugganum sá sem snöggvast í einmana stjörnu sem horfði dapureyg handanúr geimnum á myrkan stíg þar sem ungur maður brauzt áfram með fangið fullt af stormi, en hvítfextir boðar dóu við svarta kletta.
 Vindurinn reif í föt hans á sama hátt og hann tætti skýin efra, ýfði hárið á höfði hans einsog öldurnar á haffletinum. Vitinn hélt áfram að depla sínu stóra og stingandi auga, svo ungi maðurinn fékk hvað eftir annað ofbirtu í augun og hrasaði. Hann var yfirkominn af þreytu og formælti þessu þrásama auga sem stöðugt ásótti hann og gerði gönguna þunga. Uppí hug hans skutust eitt af öðru augun sem einhverntíma hafði verið deplað framaní hann - augun sem höfðu brennt sig inní vitund hans:
 Ásakandi augu móður hans þegar hún heyrði um fyrsta afbrot hans - það augnaráð varð honum til ævilangs angurs. Augu auðmannsdótturinnar sem lá á svampþykku gólfteppi á meðan hún lék Barcarole á grammófóninn - hún leit til hans augum fullum af ástleitni og peningum, en hann glotti bara og hún horfði á hann í særðum sjálfsþótta. Augu skækjunnar þegar hann borgaði meira en upp var sett til að margfalda niðurlæging sína - hún leit til hans andartak mædd af ónýtu stolti áður en hún hrifsaði til sín peningana. Augu litlu berfættu betlistúlkunnar sem rétti fram skinhoraðar hendur í von um nokkra skildinga - í augum hennar las hann hyldjúpa örvæntingu sem hann hefði viljað gefa mikið fyrir að breyta í skammlíft gleðibros, en þá var hann auralaus. Augu hennar sem hann elskaði og kvaddi forðum - skínandi dökk augun þegar hún að skilnaði horfði á hann í saklausu trausti sínu: hann lofaði að koma aftur að ári....

(s. 19-20)