Snæbjörg í Sólgörðum

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr Snæbjörgu í Sólgörðum:

Snæbjörg á Sólgörðum er ein síns liðs. Faðir hennar er enn ekki mættur á skemmtistaðinn. Hún ætlar að ganga út og vita hvort hún sjái nokkuð til ferða hans. En um leið og hún stígur fram í anddyrið, kemur hún auga á Jens. Hann stendur fyrir utan dyr samkomuhússins og horfir niður á fætur sér. Skyldi hann vera að bíða eftir einhverjum? Ósjálfrátt hraðar hún sér út. Hún verður að heilsa honum. Snæbjörg nemur staðar hjá bernskuvini sínum. Jens lítur upp. „Snæbjörg,“ líður af vörum hans, og bjart bros flæðir um andlitið. Hún réttir honum höndina. „Komdu sæll, Jens,“ segir hún lágt. „Ég óska þér til hamingju með stúdentsprófið. Það var frábært.“ Hann tekur þétt í hönd hennar. „Ég þakka þér fyrir, Snæbjörg mín. Komdu blessuð og sæl,“ svarar hann og leynir ekki gleði sinni yfir endurfundunum. „Ertu hér ein?“ spyr hann svo. „Já, eins og stendur. Pabbi átti brýnt erindi í kvöld út á bæi. En hann kemur hingað í bakaleiðinni og sækir mig.“ „Þá verð ég að vera staddur hérna, ég þarf að hitta hann. Annars var ég á leið út í Jónsmessunóttina. Ætlar þú ekki að vera á dansleiknum, Snæbjörg?“ „Ekkert frekar.“ Hún brosir við og roðnar örlítið. Eiginlega var ég líka á leið út í Jónsmessunóttina. Ég ætlaði að gefa gætur á ferðum pabba. En hann er enn hvergi sjáanlegur.“ „Getum við þá ekki átt smá samleið, Snæbjörg, eins og forðum?“

(s. 130-131)