Snæfellsjökull í garðinum : átta heilagra nútímamanna sögur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Snæfellsjökull í garðinum:

Snæfellsjökull í garðinum: Hið almenna ástarbréf Maríu (brot)

Guð minn góður, þegar ég vaknaði í morgun var Snæfellsjökull í garðinum! Ég fann bjarma hans á andliti mínu áður en ég opnaði augun, og ég vissi að hann lýsti upp allt herbergið, bjartur og skínandi einsog sólin. Guð minn góður, ég þakka þér; það var Snæfellsjökull í garðinum!
Og ljós hans flæddi óheft innum litla gluggann sem snýr útí bakgarðinn með snúrustaurunum og víðikræklunum - streymdi gegnum gluggatjöldin og endurkastaðist af hvítum veggjunum, loftinu, sængurfötunum og mínu eigin andliti, engu daufara en þegar það kom inn: Snæfellsjökull í garðinum!
Ég mundi næstum strax að allir biðu. Þið! Þið voruð þar, þótt þið væruð það ekki - þið voruð í mér. Þið mynduð sjá allt með mínum augum eftirá, og þið mynduð spyrja: Fórstu ekki framúr að gá útum gluggann hvað væri í garðinum, þótt þú vissir að það var Snæfellsjökull í garðinum?
En ég hreyfði mig ekki. Ég vildi ekki flýta mér að njóta strax til fullnustu þessa undurs lífs míns. Snæfellsjökull í garðinum! Og birtan frá honum fossaði innum gluggann og baðaði andlit mitt svo fersk og svalandi að það eitt hefði verið nóg tilað gleðja mig í heil tíu ár! Og það er ekki svo lítið, því þessir tímar eru daprir.
Ég mókti því áfram með lokuð augu, hamingjusamari en ég hafði nokkurntíma verið, naut ljóssins frá jöklinum á andliti mínu og hugsaði hvað eftir annað: Það er orðið! Undrið hefur gerst! Snæfellsjökull í garðinum! Ég þakka þér!
Svo mundi ég aftur að allir biðu. Og þið mynduð spyrja mig: Hvernig var hann? Hvernig var Snæfellsjökull í garðinum? Fórstu ekki framúr að gá útum gluggann? Og ég myndi svara: VAR hann! Hann ER hér ennþá! Komið bara og sjáið með ykkar eigin augum!
Jökulskinið lék andlit mitt gullið, og ég vissi að það ljómaði um allt herbergið einsog geislar rísandi sólar. Og ég lá áfram með lokuð augun og lét það baða mig. - Og alltíeinu mundi ég eftir því sem faðir minn hafði sagt við mig einn löngu liðinn dag: Dóttir góð, ef þú verður aðeins nógu staðföst nógu lengi, muntu vakna til þess einn góðan veðurdag að Snæfellsjökull er í garðinum. - Vittu til!

(s. 111-112)