Snjóhjónin syngjandi : Ævintýri

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Snjóhjónin syngjandi: Ævintýri:

Föstudagskvöld Þegar Alda opnaði jóladagatalið sitt daginn eftir, sá hún að aðeins voru fjórir dagar til jóla. Tíminn hafði liðið furðu hratt. En það er einmitt dagana fyrir jólin, sem hann rétt silast áfram. Kvöldævintýrið hans pabba hafði eitthvað breytt því lögmáli. Annars var Alda ekki viss, hvort þetta væri ævintýri. Stundum sýndist henni Lævís loðnaskott vera að læðast að húsabaki og Hrekkur vera einn af hröfnunum, er brýndu gogginn uppi á klettunum ofan við þorpið. Hún hafði orð á þessu við Ösp. Hún hló bara og sagði að Alda væri ímyndunarveik – og það er auðvitað alls ekkert skemmtilegt. En það var fleira en sagan hans pabba, sem dreifði huganum. Stelpurnar voru í óða önn að búa til jólakort, sem þær ætluðu að senda leiksystkinum sínum. Þær snérust líka fyrir ömmu og mömmu, ýmist ofan í búð, út á pósthús eða í næsta hús eftir bökunaruppskrift, tískublöðum eða einhverju öðru, sem er hvað mest aðkallandi fyrir jólin. Þá mátti heldur ekki gleyma að setja skó út í glugga á kvöldin. Það brást ekki að góðgæti var í þeim að morgni. Og svo var það litli bróðir, jólasveinninn, eins og pabbi kallaði hann. Þó hann svæfi mikinn hluta sólarhringsins, þurfti að huga vel og dyggilega að honum.

(s. 41-42)