Sögur úr seinni stríðum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1978
Flokkur: 

Úr Sögum úr seinni stríðum:

Þegar hinn fláráði minkur kenndi járnsins varð hann felmtri sleginn því hann hugði sig með öllu óhultan þar inni. Því var það að hann setti út klærnar og fyllti lungun af lofti og stökk með hásum skræk út úr holunni. Auðvitað var það nákvæmlega þetta sem þeir félagar höfðu ætlast til, en það er nú einhvern veginn svona að fátt kemur mönnum meira á óvart en það að eitthvað gangi samkvæmt áætlun. Því var það að nágranninn ungi hrökk ofboðslega við og kippti byssuhlaupinu upp sem svaraði hálfum öðrum metra og skaut, - á milli fótanna á honum föður mínum þar sem hann studdist gleiður fram á jarnkarlinn uppi á veggnum, enn hálfboginn eftir lagið. Þar munaði litlu að minkurinn ynni enn eitt óhappaverkið á íslenskri bændastétt, en byssa nágrannans var ekki slitin eftir rennilóð og setti því þétt svo að fætur föður míns sakaði ekki – en það voru haglagöt á báðum buxnaskálmum.
En að því var enginn tími til að hyggja, - ekki nú, - því að minkurinn smaug inn í kartöflugrasið og hvarf. En nú bættist þriðji nágranninn í hópinn, - einnig með skotvopn, og hafði fundið á sér að eitthvað var á seyði. Orðalaust gekk hann í slaginn og nú var hlaupið um kartöflugrasið og skotið aðvörunarskotum ýmist upp í loftið eða niður í jörðina. Og þar kom að lokum að hann faðir minn fann eitthvað kvika við il sér og steig fast á. Minkurinn rak upp ógurlegan skræk en faðir minn æpti heróp á móti og vopnabræður hans komu báðir hlaupandi, stungu hlaupunum niður í kartöflugrasið og hleyptu af. Í það skiptið eyðilagðist nýtt gúmmístígvél föður míns gjörsamlega en til allrar mildi slapp hann sjálfur ósár. Því miður slapp minkurinn ósár líka.
(s. 18-19)