Sögur úr Skuggahverfinu : Tvær sögur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Sögum úr Skuggahverfinu: 

I

Upphaf sögu minnar má rekja til þess bölvaða dags er ég bauð Eysteini bróður mínum í Gamla bíó sumarið 1962. Ég kýs samt að hefja skýrslu mína, hæstvirtu herrar, þann löngu liðna morgun er ég fékk í pósti þýsku útgáfuna á bók minni, Ísland hersetið.
 Ég leigði á þessum árum herbergi til vinnu við Grettisgötu og lét senda mér þangað þann póst er viðkom mínu starfi. Ég var árla á ferli, böggullinn beið mín í þrepi þegar ég opnaði skúrdyrnar.
 Hjarta mitt tók viðbragð, ég lét frá mér skjalatöskuna og tók hann upp báðum höndum, ég man svo gjörla að hann var póststimplaður í Heidelberg hinn 18. september 1991. 
 Ég gekk upp stigann og opnaði dyrnar á herbergi mínu. Ég lagði böggulinn á skrifborðið og hengdi upp regnfrakkann og derhúfuna. Ég skrúfaði frá ofninum og beið með að taka af mér trefilinn þar til hlýnað hafði. Ég sat langa stund yfir bögglinum án þess að tíma að ljúka honum upp. Mér var létt um hjarta. Ég vildi treina mér stundina.
 Loks losaði ég látúnstittinn sem hélt umslaginu saman. Frágangur og útlit var jafnvel enn vandaðra en ég hafði þorað að vona. Á kápunni var myndin fræga af Churchill, Stalín og Roosevelt á Jaltaráðstefnunni. Yfir þeim gnæfði ég spekingslegur. Ég var klipptur inn í myndina á haganlegan hátt. Það var engu líkara en ég væri að virða þessa valdamiklu menn fyrir mér með föðurlegum svip. Skolleitt hárið var stuttklippt, kembt upp frá enninu og strákslega úfið. Nefið þunnt og nokkur meinfýsni við vinstra munnvikið. Klæðskerasaumuð fötin fóru mér vel.

(s. 59)