Stefnumót

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Úr Stefnumótum:

Í flæðarmálinu

Sjórinn var gulur í fjöruborðinu. Þykkar öldur skullu þunglamalega á klöppunum. Haf og himinn voru grá. Hún lá vakandi. Hlustaði á regnið streyma niður rúðuna. Hljóðið var svæfandi. Þær komu upp úr öldunum svo hundruðum skipti. Lögðust á gráar klappirnar og breiddu úr gulu hárinu. Hún dottaði. Í draumnum var hún blaut og köld. Hún hrökk upp með saltbragð í munninum. Þær voru allar hreistraðar. Sporðar þeirra ljósgrænir, efri hlutinn bleikur. Brjóstin voru lítil og geirvörturnar varla greinanlegar. Augun eins og í fiskum, útstæð og augnlokin næstum gegnsæ. Kringum munninn var hreistrið örlítið þykkara svo minnti á varir. Líkami hennar var votur af svita. Hún bylti sér órólega. Þráði skyndilega vatn, saltan sjó. Þær lágu eins og marglit ábreiða í fjörunni. Kyrrar í fyrstu en brátt var flæðarmálið ein iðandi kös. Þær töluðu ekki en kurruðu líkt og dúfur. Það var hætt að rigna. Hreistrið þornaði fljótt. Við það breyttist litarhátturinn og sló á þær hvítri slikju. Í gulu þykku hári þeirra var flæktur alls kyns sjávargróður. Regnið streymdi ekki lengur niður rúðuna. Hún var hungruð. Henni datt í hug þang salt og safaríkt, hrár fiskur mjúkur viðkomu og bragðsterkur. Það fór hrollur um hana eins og draumurinn hefði verið raunverulegur og hún rennvot. Sjávarlykt barst inn um opna gluggana.