Stóri skjálfti

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Saga rankar við sér eftir flogakast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Það síðasta sem hún man er tveggja hæða strætisvagn sem vegfarandi efast um að hún hafi í raun og veru séð. Næstu daga drottnar efinn yfir huga hennar. Hvað gerðist fyrir flogið? Hverju getur hún treyst? Og hvernig getur hún botnað nokkuð í tilfinningum sínum þegar minnið er svona gloppótt?

Úr bókinni:

Við gætum keypt staðsetningartæki fyrir Ívar, segir Bergur, hinum megin símalínunnar, grunsamlega yfirlætislegur. Hann reynir að stilla sig um að hljóma of tilfinningasamur þegar hann þylur hraðmæltur upp að líklega sé hægt að fá sérhönnuð GPS-armbönd á krakka eða láta sauma þau í fötin þeirra.

Hann mæli þó með því að hafa armbandið laust, miðað við ör fataskiptin á syni okkar.

Ég hreiðra um mig í símastólnum, í mestu erfiðleikum með að svara spurningu hans því mig langar svo til að spyrja af hverju hann sé ekki hjá mér.

Já, er það? tauta ég loks, uppástungan er vægast sagt ólík honum. Undir venjulegum kringumstæðum væri það ég sem reyndi að selja honum langsótt öryggistæki og hann að muldra eitthvað fjarhuga. Hann á að vera sá slaki, ég sú stressaða. Eða hvað? Kannski er flogunum um að kenna að ég upplifi okkur bæði á ská og skjön.

Mig rámar í þessa fjarlægu tilfinningu eftir flog síðan í gamla daga, þegar allt virtist fjarlægt og öðruvísi en það átti að vera. Tilfinningin býr með mér þó að ég muni ekki eftir flogunum sjálfum. Af hverju liggur myndin af okkur fjölskyldunni í dótatrukknum hans Ívars? Hann hlýtur að hafa verið að leika sér með hana.l Ég teygi mig í átt að trukknum, toga hann til mín, stilli myndinni upp við vegginn við símaskenkinn og virði hana snöggt fyrir mér. Nístandi sár tilfinning hríslast um kroppinn og blindar mig. Mér tekst þó að spyrja: Hvar ertu?

Nú, bara heima, segir hann.

Heima hjá þér. Auðvitað! segi ég hægt, depla augunum og finn fyrir þyngslum í brjóstinu, það er rétt skilið hjá mér að hann á ekki lengur heima hjá mér. Var ég að vona að það væri hugarburður? Staðreyndirnar skoppa í stakkatói. Í huganum brosir hann til mín; Bergssvipurinn svo góðlátlegur þegar hann dregur annað augað í pung. Skyggnimyndasýningin í höfði mér er svo hröð að ég rétt næ að greina hverja mynd. En þær flökta, svo óljósar að ég treysti þeim varla.

Staldra við ógreinilegar útlínur þess sem eitt sinn var: íbúðin hérna var öðruvísi, ég man ekki betur en það hafi verið persnesk motta á gólfinu við símastólinn – er það ekki? En það er sárt að reyna að muna. Tárin þrýsta á augnkúlurnar, gráturinn á eftir að sprengja sér leið út, ég má ekki hugsa um þetta, sársaukinn leitar strax upp í höfuðið um leið og djúpstæð kergja gerir vart við sig. Hvað er að honum að tala svona eins og allt sé bara venjulegt? Hvar hélt ég eiginlega að Bergur væri? Ég hringdi ósjálfrátt í farsímann hans, eina hraðvalið í heimasímanum, svo hann myndi heyra ef ég fengi flog; einhver verður að heyra í mér og af öllum þessum er hann sá helsti.

En var það allt og sumt? Ég má alls ekki vera ein, mamma ætlaði örugglega að koma aftur, ég má ekki gráta.

Saga, ertu að hlusta á mig? spyr Bergur. Eigum við að kaupa þetta tæki?

(22-3)