Sumarið bakvið brekkuna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Sumarið bakvið brekkuna:

Formáli

Ég veit ekki hvar uppspretta atburðanna liggur; þeir lúta lögmálum sem mér er um megn að skilja. Þannig var ætlunin að fylgja Þórði og félögum þar sem þeir óku gegnum regnið í átt að Gilsstöðum, en þá hrýtur þessi setning niður úr blýantinum: Skýringar á atburðum nútíðar finnið þið í fortíðinni.
Og ég fór að hugsa.
Ég hugsaði um sumarið þegar lögreglubílnum var velt um koll og ástinni sló eins og eldingu niður í sveitina. Þarna er aldeilis efni í frásögn, hugsaði ég og ákvað að snúa við og stökkva tvö ár aftur í tímann.
En það er nefnilega það; frásögnin er ólmur hestur sem ber mig ekki tvö ár aftur í tímann, heldur hundrað. Ólmur hestur sem æðir áfram og staðnæmist fyrir hundrað árum skammt frá bænum Hlíðartúni, sem í dag eru bara orðlausar tóttir, en þar bjuggu forfeður Karlsstaðafólksins í eina og hálfa öld. Staðnæmist skammt frá Hlíðartúni og ég hangi örmagna slytti á baki hans með ógnarlegan þyt ára í eyrum. Og ég geri mér grein fyrir því, að nú er kominn tími til að segja frá atburðum sem beint eða óbeint tengjast frægu manntali sem Hersir í Hlíðartúni tók að beiðni sýslumanns. En Hersir er langafi Þórðar á Karlsstöðum.
Manntalið og atburðir því tengdir hafa lifað í hugum fólksins í sveitinni, en í ýmsum útgáfum og sjálfsagt að það komi fram, að ekki eru allir hrifnir af þeirri útgáfu sem nú segir frá. Jóni hreppstjóra á Felli þykir til að mynda alnafni sinn og afi ekki njóta sannmælis. En það er líka gamall og góður siður að vilja veg sinna sem mestan.
Allt um það: árið er 1897 og þarna flýgur spói upp og þrír ríðandi menn nálgast Hlíðartún. Tveir þeirra eru með kaskeiti en sá sem fremstur ríður; hann er með hatt.

(s. 67 - 68)