Svalasta 7an

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 

Úr Svölustu 7unni:

Hvað þráirðu mest í lífinu, Jóel? Elísabet spurði af hjartans einlægni en Jóel fannst eins og hans eigin samviska hefði varpað orðunum út í andrúmsloftið. Honum fannst hann heyra spurningarnar aftur og aftur. Hann þagði drykklanga stund og starði annars hugar fram fyrir sig. Ótal myndir komu upp í hugann, myndir sem hreyfðu við tilfinningum hans. Lítill kertalogi flökti í stofunni.
Það er svo margt, svaraði hann loksins ofurhljótt. Hann var ekki meðvitaður um hvort hann var að hugsa eða hvort varir hans hreyfðust. Mest af öllu langar mig, hélt hann hikandi áfram, að hitta pabba. Ég er svo hræddur um að hitta hann aldrei aftur. Ég held að hann komi aldrei aftur til Íslands. Og mig langar líka að vita hvers vegna hann fór. Pabbi hefði aldrei farið frá mér bara til þess að vinna í nýju landi, eins og mamma segir. Pabbar gera ekki svoleiðis. Við pabbi vorum vinir. Hann treysti mér fyrir öllu, nema þessu. Mamma snýr bara út úr þegar ég spyr um ástæðuna.
Jóel leit á Elísabetu. Hún sat grafkyrr í sófanum. Það var ekki að sjá að hún deplaði auga. Hann varð þess ekki var að hún drægi andann. Svo langar mig líka til að mamma hætti að drekka. Ég er svo oft skíthræddur um hana, þótt ég haldi að mér sé alveg sama. Stundum held ég að hún komi ekki aftur heim þegar hún er úti á nóttunni. Fólk getur alveg dottið og dáið þegar það er svona drukkið. Það er svo ógeðslega kalt. Ég veit ekki hvort ég gæti verið einn með Rebekku ef mamma myndi deyja. Kannski. Kannski kæmi pabbi þá heim. Eða við færum til hans. Kannski. Ég á bráðum fyrir því í banka, rúmlega hundrað þúsund. Kostar samt örugglega miklu meira fyrir okkur bæði. Svo langar mig líka mest af öllu að verða atvinnumaður í fótbolta. Spila með Manchester eða Chelsea eða Arsenal eða Liverpool. Það væri gaman að spila með Eiði Smára eða Beckham. Ég hugsa oftast um að verða atvinnumaður í fótbolta. Miklu oftar en ég hugsa um pabba eða mömmu. Ég gæti þénað milljónir, mörg hundruð, ef ég verð góður. Þá gæti ég gefið mömmu pening, pabba líka og Rebekku. Og auðvitað Tomma og öllum sem ég þekki. Þá gæti ég gefið KA nokkrar milljónir og ...

(s. 112 - 113)