Svartir brúðarkjólar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Úr Svörtum brúðarkjólum:

Söngur Signýjar á brúðkaupsnóttinni

Af svölum nýju íbúðarinnar sem Samúel keypti á Hálfhól virðir Signý fyrir sér tunglið, bleikt og gult undir fölgrænni slæðu, og tekur niður sólgleraugun. Hún er komin úr brúðarkjól sínum í silfurlitt perlupils og þröngan hvítan bol, blá slæða um hálsinn. Perlupilsið svo sítt að það sést ekki í skóna enda er hún berfætt, og tekur niður sólgleraugun. Einblínir á tunglið. Styður sig við svalahandriðið. Syngur mjög lágt:

brúðargjöf þín til mín dimman
brúðargjöf þín til mín dimman
dimman
dimman
einn dimman morgun fer ég frá þér

morgungjöf mín til þín dimman
morgungjöf mín til þín dimman
dimman
dimman
þar mæti ég örlögum mínum

jólagjöf okkar til okkar dimman
jólagjöf okkar til okkar dimman
dimman
dimman
jóladagsmorgun slekk ég á kertunum ein

Setur upp sólgleraugun. Klakar í vatni á svölunum fljóta og dingla. Hún lyftir pilsinu, faldurinn votur, og veður innfyrir og lokar svalahurðinni hratt. Dregur fyrir gardínurnar fölbláar þangað til ljósin eru slökkt. En af svölunum drjúpa silfurlita dropar. Og dingla á dimman þykkan plöntugarðinn undir svölunum einsog óteljandi dvergvíbrafónar. (Í framtíðinni verður vonandi hægt að skríða uppá þessar svalir í stiga. Þegar þau verða komin hvort í sitt herbergið og það þeirra sem heldur náttúrunni fær svaladyrnar.) Ding ding (kallar náttúran) ding ding úr silfurlita dropum á þykkskorpa plönturnar, ding, þegar örmjóar stjörnur hrapa neðan af svölunum, þúsundogeitthvað dvergstjörnuhröp, á brúðkaupsnóttu Samúels og Signýjar konu hans.

(s. 130-131)