Synir duftsins

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Sonum duftsins:

Erlendur og Sigurður Óli óku suður í Hafnarfjörð að hitta systur Halldórs Svavarssonar og segja henni frá láti Halldórs. Hlýnað hafði eftir kuldakafla og því var slabb á götunum. Bráðinn snjór, tjöruskítur og salt blandaðist saman í brúnleitt, blautt og kalt og óþægilegt slabb sem engin leið var að komast hjá að bera með sér inn í hús og bíla. Þegar frysti aftur varð slabbið að svellbunkum og krapi. Þeir töluðu ekki mikið saman á leiðinni. Erlendur sat í þungum þönkum og Sigurður Óli einnig. Tannlæknaskýrslur höfðu staðfest hver hinn látni var. Halldór Svavarsson. Frumrannsókn benti til íkveikju. Engin fingraför á bensínbrúsanum. Erlendur hafði unnið manna lengst í rannsóknarlögreglunni og hafði reynslu af hvers lags afbrotarannsóknum. Lengst af rúmaðist engin sérhæfing innan rannsóknarlögreglunnar og sömu menn könnuðu ólíkustu mál. Nú var þetta breytt og menn höfðu ákveðin sérsvið, allir nema Erlendur sem var fríspilandi og réð að mestu sjálfur hvað hann gerði. Hann hafði lengstan starfsaldur, og mun lengri en yfirmenn hans.
 Erlendur var erfiður í samstarfi og Sigurður Óli hafði fundið fyrir því en þeir unnu vel saman. Kannski var það vegna þess að Sigurður Óli hafði komist nær því en nokkur annar að skilja og skynja þann skapofsa sem í Erlendi bjó. Og það kom ekki til af góðu.
 - Þetta er hrokafullur andskoti, sagði Erlendur upp úr eins manns hljóði, sá sem gerði þetta. Mér kæmi ekki á óvart þótt einhver helvítis unglingalýður úr skólanum hefði kálað honum. Það eru engin takmörk fyrir því hvað krakkar geta verið miklar skepnur.
 - Eða einhver sem vill láta líta út fyrir að þetta hafi verið viðvaningur, sagði Sigurður Óli. Finnst þér útilokað að hann hafi kveikt í sér sjálfur?
 - Meinarðu að hann hafi bundið sjálfan sig niður og kveikt svo í eldspýtu?
 - Ef hann hefði verið með kveikjara í hendinni og látið hann detta. Ég veit það ekki.
 - Ég efast stórlega um að nokkur maður geti gert sjálfum sér annað eins, sagði Erlendur. Þú vissir af þessum sem stökk á geðspítalanum. Ég held að Einar sé með málið. Það gerðist um svipað leyti og kveikt var í hjá Halldóri.
 - Só?
 - Só? Hvað er þetta Só sem maður heyrir alla tíð? Fórstu til Ameríku að læra Só? sagði Erlendur með fyrirlitningu og leit á Sigurð Óla. Ég var bara að hugsa um hvað þetta er einkennileg tilviljun. Tvö dauðsföll á sama tíma.
 - Það eru alltaf einhverjir að drepa sig, sagði Sigurður Óli.
 Þeir óku áfram þegjandi. Þetta var seinni part dags og tekið að rökkva. Í útvarpinu var enn ný frétt um tilraunir skoskra vísindamanna á klónuðum kindum, nokkuð sem Erlendur hafði megnustu andúð á og hafði haldið um langar tölur á stöðinni. Aðrir litu á klónun sem jákvæða vísindaþróun og fögnuðu framtakinu. Sigurður Óli var einn af þeim.
 - Djöfulsins ógeð, sagði Erlendur eins og við sjálfan sig. Grípa svona fram fyrir hendurnar á náttúrunni.
 - Ég las að þeir ætluðu að rækta kindur með mannsblóð, eða eitthvað. Svín með mannshjörtu, sagði Sigurður Óli.
 - Djöfulsins ónáttúra, sagði Erlendur. Þessum mönnum er ekkert heilagt! 
 - Virðist ekki vera, sagði Sigurður Óli og brosti með sjálfum sér.

(s. 34-35)