Taumhald á skepnum

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000

Magnus Mills: The Restraint of Beasts.

Þessi fyrsta skáldsaga Mills kom út í Bretlandi 1998 og hefur síðan verið þýdd á fjölda tungumála.

Úr Taumhald á skepnum:

Sagði ykkur það væru þeir! hrópaði Tammi. Hann bókstaflega dansaði.
Þeir hljóta að vera fjórir, sagði Rikki.
Já, hugsaði ég, þeir eru áreiðanlega fjórir. Hvernig hefðu þeir annars getað verið svona fljótir? Það var ekki nóg með að þeir hefðu lagt þessa nýju girðingu heldur höfðu þeir líka rifið niður þá gömlu og ónýtu sem var þarna fyrir og fjarlægt allt úrgangstimbrið og vírinn. En það, sem stuðaði okkur þó mest, var að þeir hefðu verið hér á meðan við vorum að puða uppá hæðinni, og við hefðum ekki haft hugmynd um þá. Samfara rigningunni var mikil þoka svo við höfðum verið meira og minna einangraðir frá umheiminum allan daginn. Auk þess var þetta í fyrsta sinn sem við höfðum ekki komið niður af hæðinni til að borða. Um hádegið vorum við vanir að fara ofan til að hvíla okkur enda þótt það bryti í bága við vinnureglur Dónalds, (hann sagði það vera gagnslausa tímasóun). En af því við vorum svo seinir fyrir í dag höfðum við tekið með okkur samlokur. (Ef það var þá hægt að kalla það samlokur. Rikki hafði smurt þær. Brauðstykki aðskilin með osti, væri réttari lýsing.) Við höfðum hlaðið dagskammti af staurum og vír á skrjóðinn og ekki komið aftur síðan.
Hversu lengi? Í sjö tíma. Og nú hafði hér allt í einu sprottið upp úr blautu skínandi ný girðing á meðan við litum undan. Bölvuð ósvífnin í þessu fólki! Þessir Hólbræður létu eins og þeir ættu staðinn. En ef við hefðum komið að þeim í miðjum klíðum? Þeir hlutu að hafa vitað að við vorum á svæðinu: það var stór stafli af timbri og öðru við hliðina á þeim á hlaðinu. Og hvað var herra Perkins að meina með að ráða tvo verktaka í vinnu á einu og sama býlinu? Var hann að etja mönnum saman? Ég býst við að Hólbræður hafi verið í jafn miklum rétti og við til að vera þarna, en engu að síður voru það þrír hnípnir girðingakarlar sem sátu gruflandi í hjólhýsinu þetta kvöld. Þetta virtist hafa haft mikil áhrif á Tamma, og hann var með alls konar vangaveltur.
Heldurðu að þeir fái meira borgað eða minna en við fyrst þeir eru fjórir? spurði hann.
Ég veit það ekki, svaraði ég.
Af því ef þeir skipta peningunum í fernt þá verður minna á kjaft, en þeir geta unnið hraðar og fá þess vegna borgað oftar.
Við vitum ekki einu sinni, hvort þeir eru fjórir, sagði ég.
O, þeir eru örugglega fjórir. Fjórir bræður.
Þú ert viss um það?
Svona bræður eru alltaf fjórir, sagði hann. Og eitt ár á milli þeirra.
Það gætu verið þrír bræður og svo pabbi þeirra, lagði ég til.
Nei, svaraði hann. Þá væri það Hóll & synir.
Rikki blandaði sér í samræðurnar. Hvernig stendur á því að Dónald hefur efni á að senda okkur alla leið hingað niður eftir og græðir samt á því á meðan það er fólk eins og þessir Hólbræður hérna á svæðinu?
Þetta er spurning um umfang, útskýrði ég. Við erum stórir verktakar sem girðum alla hæðina. Girðingin hjá þessum Hólbræðrum er bara stuttur stubbur, ekki satt?
Menn kinkuðu kolli.
Þeir kunna ábyggilega ekki einu sinni neitt í háþansgirðingum, hélt ég áfram. Við erum nú einu sinni spesíalistar, ekki satt?

(s. 76-77)