Þættir af séra Þórarinum og fleirum

Þættir af séra Þórarinum og fleirum
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um bókina

Eins og heiti bókarinnar gefur til kynna geymir hún þætti – af séra Þórarinum og fleirum. Óhikað mætti kalla flesta þættina smásögur en fáeinir eru kannski fremur … þættir. Hvað sem því líður er hér á ferð lesefni sem bragð er að: beitt, fyndið, háalvarlegt og grípandi; eftirminnilegar persónur og sögulegir atburðir.

Í þáttunum þrettán er víða komið við og ólík viðfangsefni reifuð; sagt er frá hugkvæmni og nýsköpun, heilagleika og ættareinkennum, sorpritum og bernskubrekum, árangursblindu og yrkingum, svo fátt eitt sé nefnt. Og svo er það séra Þórarinn.

Úr bókinni

Þegar Hans vaknaði morgun einn draumstola i rúmi sínu fann hann undireins að eitthvað mikið og merkilegt hafði gerst með hann um nóttina. Yfir hann hafði komið óþekkt tilfinning. Í einni svipan var sem allt væri breytt. Hann gat ekki gert sér grein fyrir hvað það var, skynjaði bara einhver gríðar- leg umskipti. Og þetta voru ekki aðeins skammtímaáhrif út frá óræðu, hálfgleymdu draumarugli eins og stundum vildi verða. Nei, draumfarir komu þar hvergi nærri, hann hafði sofið óvenjudjúpum og endurnærandi svefni og því draumlausum með öllu. Hann lá kyrr um stund eftir að vekjaraklukkan hringdi og velti fyrir sér í hverju þetta lægi en tókst ekki að henda reiður á því.

Hið ytra virtist allt með felldu og óbreytt: Bjartar raddir bárust úr eldhúsinu, glamur í diskum og glösum, börnin voru að búa sig af stað í skólann. Hann heyrði sturtuna dynja og vissi að konan hafði að venju vaknað á undan honum og klukkunni. Tilfinningin sem gagntók hann var fyrst og fremst jákvæð, honum var ljóst að um mikið fagnaðarefni var að ræða þó hann gæti ekki með nokkru móti áttað sig á inntaki þess.

Engu að síður var sjálf kenndin nokkuð tvíræð eða beggja blands: Hann fann sterklega fyrir gríðarlegri ábyrgð sem hlaðist hefði á hann í einni svipan en þrátt fyrir það fannst honum hann vera sem barmafullur af innri rósemd og fullkomlega yfirvegaður. Sérstætt var það og mjög óhanslegt, yfirleitt fylltist hann kvíða yfir öllum verkefnum, stórum og smáum, sem að honum steðjuðu, áhyggjum sem gjarnan urðu æ þyngri eftir því sem ábyrgð hans sjálfs gat talist meiri.

Það var ekki fyrr en seinna um daginn sem svarið blasti við. Eftir matartímann í ráðuneytinu hafði hann að venju brugðið sér í stutta hressingargöngu niður að Sólfarinu við Sæbraut og tyllt sér þar á bekk. Svæðið var þakið túristum. Hann virti þá fyrir sér og skynjaði sér til furðu að aldrei þessu vant pirruðu þeir hann ekki minnstu vitund. Þvert á móti fannst honum hann elska þetta folk. Það var fyrst og fremst indælt og krúttlegt, svona dúðað og hrekklaust að bjástra við myndavélar sínar og síma í barnslegri einlægni. Hann fann til samkenndar með þessu heiðarlega alþýðufólki sem hann vissi að oftar en ekki hafði lagt hart að sér og hert sultarólar svo það gæti lagt til hliðar drjúgan skammt af rýrum tekjum sínum, til þess eins að mega standa þama opinmynnt af hrifningu yfir hlutum sem hann og aðrir venjulegir Íslendingar tóku ekki einu sinni eftir. Hann blygðaðist sín vegna fyrri afstöðu sinnar en fyrirgaf sjálfum sér þó allt, alveg viðstöðulaust. Einnig það var óvenjulegt.

Og þar sem hann sat á bekknum út við fjörugrjótið í blankalogni kom skyndilega yfir hann unaðsleg tilfinning og harm fylgdist uppnuminn með því hvernig síðvetrarsólin glóði og glitraði um Esjuna. Hann hafði aldrei veitt þessu athygli fyrr og varð því dálítið undrandi og fór að velta því fyrir sér hvernig á þessu gæti staðið.

Þegar hann gekk heim til sín vestur í bæ að loknum vinnudegi var hinsvegar komið hífandi rok.

(7-9)