Þar sem vonin grær

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1983
Flokkur: 

Úr Þar sem vonin grær:

Aftur lá leið þeirra til Reykjavíkur. Nú réðu þeir sig í vinnu og tóku herbergiskytru á leigu. Vinnan stóð ekki lengi, og þeir byrjuðu fljótt aftur sitt fyrra líferni, en áður en þeir höfðu glatað frelsinu á nýjan leik, skall reiðarslagið yfir. Skálfti fer um Loga Snæ og kaldur sviti sprettur af enni hans við þá endurminningu. Þeir höfðu náð sér í dávænan skammt af sterkum eiturlyfjum, og nú skyldi sagt skilið við raunveruleikann og lifað hátt í vímu blekkinga og ofskynjana. Ormar Þór hafði skipt fengnum jafnt á milli þeirra, og þeir höfðu komið sér þægilega fyrir í fletum sínum og voru aðeins byrjaðir að neyta lyfjanna. En þá varð honum skyndilega eitthvað svo illt, og honum fannst jafnvel að hann þyrfti að kasta upp. Hann reis á fætur og eigraði fram í snyrtiklefa, sem þeir höfðu aðgang að og þar dvaldist honum þó nokkra stund. Þegar hann kom aftur inn til félaga síns, brá honum heldur í brún, lyfjaskammturinn hans var horfinn. Hann gekk hart að Ormari Þór og heimtaði lyfin, en félaga hans varð svarafátt. Þá kom honum til hugar að Ormar Þór hefði falið lyfin, í þeim tilgangi að stríða honum, og hann tók að leita. Hann rótaði til í öllu herberginu og sneri hlutunum við, en það varð árangurslaust. Hann laut þá yfir félaga sinn og ætlaði enn að krefja hann sagna, en það fór á allt annan veg. Ormar Þór svaraði honum engu, en engdist sundur og saman á fleti sínu. Síðan blánaði hann allur og bólgnaði upp og eftir það byrjaði hann að hljóða og öskra, eins og hann liði ógurlegar kvalir. Enn reyndi hann að tala við félaga sinn, en náði engu sambandi við hann, og auðséð var að honum elnaði sóttin. Var Ormar Þór að deyja? Hann varð gripinn ofsalegri hræðslu, en eitthvað varð hann að gera félaga sínum til hjálpar. Hann þaut á dyr, án þess að vita í fyrstu hvert fara skyldi. En eins og af eðlishvöt valdi hann lögreglustöðina, sem var ekki langt þarna frá og þar var hann heldur ekki með öllu ókunnugur.

(s. 133-4)