Þegar stjarna hrapar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 

Síðasta bókin í þríleik. Hinar tvær eru Frá ljósi til ljóss (2001) og Hjarta, tungl og bláir fuglar (2002). Bækurnar komu allars saman út í einu bindi 2005, undir heitinu Þrenningin.

Úr Þegar stjarna hrapar:

Símtal sem skiptir máli

Fréttir af morðinu bárust um landið á ljóshraða og hefðu fréttamenn ekki lýst málavöxtum í slíkum smáatriðum sem raun bar vitni hefði Viktoría Jónsdóttir varla gefið sig fram samdægurs. Tekið sig saman í andlitinu, einsog hún orðaði það sjálf, hringt og sagt að hún hefði sögu að segja sem hefði sennilega alla burði til að breyta gangi málsins. Það hringdu reyndar alls konar kellingar á stöðina uppfullar af alls kyns handanlýsingum og dularfullum vísbendingum. Þeirra vegna var Viktoría því spurð hvort handanmál, skyggnilýsingar eða draumfarir skiptu einhverju máli varðandi það sem hún hefði fram að færa. Við biðjum þig afsökunar, frú, en við neyðumst til að spyrja, sagði viðmælandi hennar. Með svari sínu þótti hún taka af allan vafa: Ég trúi nú bara því sem ég tek á og sé með eigin augum og ég hef aldrei tekið mark á neinu handankjaftæði, svaraði hún með þjósti og gat þess um leið að hún óskaði þess að fá að ræða við Kjartan Gunnarsson þegar hún kæmi á stöðina. Það var ákveðið að verða við ósk hennar og hún boðuð í viðtal um hádegið. En þá gaf hún ítarlega skýrslu. Til að byrja með titraði nokkuð í henni röddin og augun voru flöktandi og vot. En þegar á leið frásögnina styrktist hún og varð að lokum yfirveguð: Ég er ekki vön að bera vitni í sakamálum, sagði hún og þar sem hún var heldur ekki vön að tala inn á segulband vandaði hún mál sitt sem best hún gat. Hún sagðist alltaf hafa verið nákvæm og mundi þess vegna engu sleppa og ekki heldur því sem virtist í fljótu bragði skipta litlu. Margt smátt gerir eitt stórt.

(s. 20-21)