Þetta er allt að koma

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Þetta er allt að koma:

16. KAFLI
Á MEÐAN AUGUN RATA UM SALINN

Enginn kemur einn í heiminn. Í sjálfu sér er að mörgu leyti ákjósanlegt að fá að dvelja hjá vandamönnum fyrstu tvo áratugi lífsins. Flestir eru þakklátir hlýju viðmóti og almennri aðhlynningu sem foreldarar og annað skyldfólk veitir þeim fyrstu árin, þjónustu og húsaskjóli sem síðan fylgir. En svo eru aðrir sem kysu helst að fá að basla þetta sjálfir, príla niður úr vöggunni og “beint útí atvinnulífið”. Enginn lærir að synda án þess að fara í sund segir þetta fólk og meira að segja sjálft Nóbelsskáldið okkar hefur látið svo um mælt að fátt sé króganum hollara en missa móður, nema þá ef væri að missa föður. Eitt er víst að enginn lifir endalaust á því að totta brjóstin á mömmu.

Einn helsti galli þess að þurfa að alast upp hjá öðrum er að þurfa að semja sig að siðum og venjum Þeirra og umgangast hluti og húsgögn Þeirra.

Margir kannast sjálfsagt við þá ónotatilfinningu að dvelja um áratugaskeið á ósmekklegu heimili (t.d. í einhverri misheppnaðri blokkaríbúð í nýju og óaðlaðandi hverfi sem hefur verið gjörhannað af tveimur núlifandi arkitektum og ber andremmu þeirra og sameiginlegum skákáhuga glögg merki) og hafa daglega fyrir augum hluti sem í sjálfu sér eru einkennilegir en verða það enn frekar vegna þess að maður kann enga útskýringu á tilkomu þeirra inná heimilið: Óransgræn rýjamotta sem hangir í holinu og lyktar eins og gegnblaut ull á heiði, fíngert skammel úr hvítu álfabeini bólstrað fjólubláu flaueli sem er alltof veikbyggt til að setjast á það og “helst ekki hafa báðar lappirnar á því í einu. . .” en er búið að þvælast fyrir heimilisfólki í fimmtán ár, eða áberandi bókartitill í skápnum á ganginum sem blasir við í hvert sinn sem maður kemur út úr herberginu sínu: “Í FÖÐURHÚSUM. Ævisaga Ingibjargar Ármann”, í stórum áberandi hvítum stöfum á rauðum kili. Heimili þitt er mótað af öðrum, fullt af þeirra dóti. Jafnvel fötin sem þú gengur í, nærfötin, rúmið sem þú sefur í, sængurverið, skrifborðið; allt keyptu þau; byggingarverktakinn og þó einkum konan hans.
Það er ekkert grín fyrir viðkvæma ungsál með listamannseðli að búa við slíkt ofríki. Í sinni ástríku einfeldni heldur hinn fullorðni fíll að hann geti að öllu leyti séð fyrir þörfum sinnar litlu listrænu músar, byggt yfir hana hlýja músarholu og fært henni fatnað frá útlöndum. En það dæmi gengur aldrei upp. Það fer allt undir fílsfætur. Fíllinn reynir að koma til móts við músina sína og vill rétta henni ranann, en fyllir upp í holugatið og mettar híbýli hennar andfýlu. Fyrir sjálfstætt hugsandi mús sem dreymir um að verða músa eða fara útí músík þá er lítið annað að gera en þreyja þorrann í foreldrahúsum og gæta þess einungis að verða ekki troðinn undir. Bíða síns tíma og halda síðan að heiman um leið og birtast fyrstu merki þess að trýni breytist í rana.

Nú var Ragga búin að halda þetta út í rúm tuttugu ár og tími til kominn að flytja að heiman. Að vísu er ekki beint hægt að segja að Ragga hafi verið mús. Hennar var ekki lítilþægnin og auðmýktin músarinnar. Hún var dýr af stærri tegund, bifur, með sterkar og ögn framstæðar framtennur; sístarfandi í sinni stíflugerð. Og foreldrar hennar voru heldur engir fílar. Að vísu var Ester með fílþungan rass og nokkuð myndarlegar augntennur en þær voru þó langt frá því að vera úr fílabeini, og þó eyru Theodórs ættu það til að blakta af verktakaspennu yfir rananum aftan úr steypufílunum, þá voru þau langt frá því að vera fílseyru. Þau söguhjónin voru meira í ætt við tamin bjarndýr. Loðin um lófa, feit og góð, en samt eitthvað í þeim til að óttast. Í Álagalandi var fjölskrúðugt dýralíf: Bifur, birnir, bolabítur, tvíburabambar og lítill gangandi íkorni.

(s. 218-220)