Þokugaldur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Þokugaldri:

Hún hrökk upp við kuldaskjálfta, reyndi að teygja sig í sængina og breiða betur ofan á sig en greip í tómt, hentist upp og leit í kringum sig. Hvar var hún? Það var allt grátt.
Hún greip fiðluna og hljóp af stað. Auli gat hún verið að sofna svona uppi í fjalli. Svo lengi var hún búin að búa hér að hún mátti vita að þokan helltist inn fjörðinn og fyllti hann á nokkrum mínútum. Hún var þó heppin að vera ekki komin lengra, heppnari en prestdóttirin forðum. Nú var bara að finna lækinn og þræða niður hlíðarnar meðfram honum þar til hún kæmi að ánni og gæti fylgt henni út í bæ.
Í haust þegar þokan hafði hangið yfir í þrjár vikur samfleytt hafði hún slegið orðinu „þoka“ upp í orðabókinni og lært skýringuna utan að: ský við yfirborð jarðar, þétt suddamóða sem byrgir sýn.
En það hafði ekki staðið að snjótittlingar yrðu að skrækjandi ferlíkjum, steinar að þursum sem kæmu ógnandi á móti manni, þúfur að sléttlendi sem maður hnyti um eða að niðurinn frá læknum bærist úr öllum áttum svo að ógjörningur væri að finna hann. Lewis Carroll hlaut að hafa lent í þoku áður en hann skrifaði Lísu í Undralandi.
Hún æddi áfram, fannst hún vera að fara niður en datt aftur og aftur og fann þá að hún var að fara upp í móti. Svo tók hún sig á, reyndi að vera róleg, fara hægt og þreifa fyrir sér. Eins gott að loka augunum, þau rugluðu bara. Betra að beina athyglinni að höndum og fótum, nota snertiskynið. Hún fikraði sig niður, aftur á bak. Verst hvað grasið var orðið blautt og hált... og moldin... og skyndilega ekki lengur gras eða mold heldur kaldur steinn undir höndum og fæturnir í lausu lofti...
Valný æpti, æpti af öllum lífs og sálar kröftum, sleppti fiðlukassanum og reyndi að vega sig upp á brúnina. Steinninn var sleipur og erfitt að finna tak á honum en annar fóturinn rakst í nibbu og henni tókst að spyrna sér upp.
Skjálfandi settist hún á brúnina og grét, þrýsti fiðlukassanum að sér og lagði ekki í að hreyfa sig, vissi ekki hve hamarinn var hár eða hvernig hún ætti að þræða fyrir hann.
Draugsleg rödd barst úr þokunni að utan og sunnan, ofan og neðan:
- Er einhver þarna, þarna, þarna...?
Valný reyndi að gleypa ekkann og klemmdi saman varirnar, þorði ekki að svara. Meinvættir úr trölla-, drauga- og huldufólkssögunum hennar langömmu sóttu að henni í óskipulögðum herskörum og eignuðu sér allar þessa rödd.
- Hæ, hvar ertu, ég heyrði að þú varst að kalla! Þursinn hafði vinninginn, hún argaði af skelfingu þegar hann birtist þétt upp við hana.

(s. 19-20)