Þrep á sjóndeildarhring

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1976

Úr Þrepi á sjóndeildarhring:

Opni glugginn (Tomas Tranströmer)

Einn morgunn rakaði ég mig
við opinn glugga
á fyrstu hæð.
Kveikti á rakvélinni.
Hún fór að snúast.
Hún snerist hraðar og hraðar.
Varð að drunum. Varð að þyrlu
og rödd - flugmannsins - braust
gegnum drunurnar, öskraði:
Hafðu augun opin!
Þú sérð í síðasta sinn.
Við hófumst á loft.
Flugum lágt yfir sumarið.
Það var svo margt, sem hreif mig, skiptir það nokkru?
Tylftir grænna lita.
Og einkum rauði liturinn í veggjum timburhúsanna.
Í sólinni glitraði á bjöllurnar í haugunum.
Kjallarar rifnir upp með rótum
bárust gegnum loftið.
Iðjusemi.
Prentvélarnar mjökuðust áfram.
Á þessari stundu var aðeins fólkið
hreyfingarlaust.
Það var einnar mínútu þögn.
Og einkum hinir dauðu í sveitakirkjugarðinum
voru hreyfingarlausir
eins og þegar setið var fyrir hjá ljósmyndara
á bernskudögum myndavélarinnar.
Fljúgðu lágt!
Ég vissi ekkert hvert
ég sneri höfðinu -
með tvískipt sjónsvið
líkt og hestur.

(s. 20-21)