Þrjár óðarslóðir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Þrjár óðarslóðir:

Serbarnir, segir fjölmiðlaþjálfinn
serbarnir
það eru nú ljótu karlarnir.

Ég hef margreynt hann að sannsögli.
Ég hef margreynt hann að getspeki.
Serbarnir, segi ég því
serbarnir
það eru nú ljótu karlarnir.

En vandlætarinn vinur minn
hefur ekki snúið við mér baki
þótt ég hafi reynt að gera hann hlægilegan, apaðu
ekki umhugsunarlaust hvað hann innir, segir hann.
Serbarnir
serbarnir
eru ekki bara ljótu karlarnir
gleymdu ekki öllum fínu frúnum
og góðu drengjunum
og sætu litlu stúlkunum.

Sjá, þau stíga þjóðdans á grænum grundum
og ganga afsíðis, stundum
í laufalundum.
Og gleymdu ekki friðarsinnum
í fjalldölum
og fáráðlingum
í skrautsölum
skógræktarmönnum, skáldum
ungkommúnistum, yfirsetukonum
þjóðernissinnum, þverhausum
og fótboltamönnum fótslyngum
og málþófskempum á málþingum.
Serbarnir
serbarnir
svo ótalmargir og ólíkir
sameiginlegt er þeim aðeins eitt:
Að drýgja í fréttum dauðasynd
og duga frelsis- og framfaraþjóðum
í algilda óvinarmynd.