Tímagarðurinn : eða Leitin að fegurðinni

Tímagarðurinn : eða Leitin að fegurðinni
Útgefandi: 
Staður: 
Selfoss
Ár: 
2017
Flokkur: 

um bókina

Tímagarðurinn er saga af leit. Aðalpersónan Brynjar er á þrítugsaldri, ístöðulaus og sorgmæddur veit hann ekki alveg hvað hann á af sér að gera og veldur bæði móður sinni og kærustu sáru hugarangri. Og sjálfum sér sömuleiðis, enda er líf hans í öngstræti. En þá grípa forlögin og skriftvélavirkinn Beggi í taumana. Við kynnumst reynsluheimi íslenskra karlmanna á ferð þeirra frænda um vegi landsins í gömlum malandi Rambler þar sem þeir staldra við í sjoppum, á bryggjum, inn til dala og hjá einkennilegum mönnum sem vanhagar um varahluti í bíla. Þá kynnumst við heimsborgaranum og rónanum Tóta í tauinu sem reynist Brynjari betri en enginn - þrátt fyrir gruggugan bakgrunn og sérstaka lífssýn.

úr bókinni

„Sorgin hefur svo margar birtingarmyndir. Þegar ég var á Spáni að lesa litteratúr þá kynntist ég gömlum körlum sem allir sýndu mér ör sín úr borgarastríðinu. Þeir voru að sýna mér sorg - ekki afrek. Hefðu þau verið lögð saman, örin, sentimeter við sentimeter, þá hefði þau náð frá Roquetas de Mar í suðri til San Sebastián í norðri. Voru þetta þó ekki í mesta lagi tólf karlar. En þeir höfðu allir misst og meiðst í tómu tilgangsleysi - þarna mörgum árum seinna voru þeir enn að syrgja. Ég held ekki að þeir hafi gert sér grein fyrir því þá. Kannski skildu þeir það - ég veit ekki, er hægt að skilja tilgangsleysi?“
   „Ofbeldi er tilgangsleysi,“ sagði ég „ljótt tilgangsleysi.“
   „Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt. Það er vissulega ógeð og eitthvað sem við eigum aldrei að samþykkja. En samt er í því fegurð; sjáðu bara hnefaleika og nautaat - dásamleg fegurð. Sá sem sér ekki fegurðina í þessum íþróttum, listgreinum, er blindur. En sá sem leggur sig eftir þessari fegurð er líka blindur.“
   „Ég skil þig ekki, Tóti.“
   „Sem betur fer.“
Merkilegt með Tóta, hann gat tekið við flöskunni, dulítið skjálfhentur og beðið með að drekka úr henni á meðan hann sagði manni einhverja svona örsögu; sem hann taldi eiga erindi við mig.

(187-188)