Töfrahöllin

Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Ár: 
2012
Flokkur: 

Í Töfrahöllinni er rakið sérkennilegt lífshlaup Jóseps Malmholms sem lifir tímana tvenna í íslensku samfélagi. Hann elst upp í skilnaðarfjölskyldu og stendur framan af í skugga bróður síns en nær sér á strik þegar örlögin grípa í taumana. Hér ber margt undarlegt við og stórskemmtilegar söguhetjur stíga á svið: Afi Jóseps sem kallar hlutina sínum réttu nöfnum, Símon bóndi á Litla-Háfi sem er engum líkur, auðmaðurinn og sjarmatröllið Kormákur Cooltran og dætur hans sem verða örlagavaldar í lífi Jóseps. Leiksviðið er öðru fremur veiðihús sem Kormákur byggir og gengur undir nafninu Töfrahöllin. Þar eiga sér stað afdrifaríkir atburðir.

Úr bókinni:

Þetta sumar leið eins og sumarið á undan, við slógum túnið – það er að segja ég sló túnið því Símon var óskaplega feginn að þurfa ekki að setjast upp á traktorinn eftir að ég hafði náð fullu valdi á honum. Rigningardaga fórum við seint á fætur og átum hafragrautinn okkar hvor með sína bók, svo lásum við allan daginn og um kvöldið tók Símon til einhvern bita handa okkur og velti vöngum yfir því sem hann hafði verið að lesa. Við horfðum sárasjaldan á sjónvarpið, Símon hafði ekkert gaman af því nema auglýsingunum. Á þær horfði hann alltaf af jafnmiklum áhuga en slökkti svo þegar kom að fréttunum.

„Það er miklu meira vit í auglýsingunum en fréttunum,“ sagði hann. „Fréttirnar segja fólki bara það sama og stendur í Tímanum og er svo endurtekið í útvarpinu. Yfirleitt eitthvað sem fólk vill alls ekki heyra. Auglýsingarnar segja fólki hvað það vantar án þess að vita af því. Hugsa sér hvað mann vantar margt án þess að hafa nokkurn tíma tekið eftir því. Þú lærir miklu meira um hvað fólk vantar – já, líka hvað þig sjálfan vantar – við að horfa á auglýsingar en fréttir.

Frumstæðar og framandi þjóðir heilluðu Símon þó meira en auglýsingarnar og gera enn í dag. Hann átti gamla danska bók með svarthvítum myndum um kynþæti og einkenni þeirra. Hún hét Racernes Kendetegn og ég er ekki viss um að hún þætti góð bók í dag, þar voru myndir af ófríðum gyðingum með lágt enni og bogið nef og þungbúnum eskimóum að slafra í sig hrátt selspik. Þar voru líka myndir af brosandi, ljóshærðum norskum stúlkum í þjóðbúnini. Líka mynd af nöktum körlum í frumskógum Amason sem slíðruðu manndóm sinn í snúnu hrútshorni sem þeir hengdu í snæri sem þeir höfðu um mittið. Símoni þótti þetta dálítið skemmtileg mynd.

„Ja, mikill skolli,“ sagði hann. „Karlgreyin. Ég held ég nennti nú ekki að vera að burðast með þetta hrútshorn. Léti hann bara dingla.“

(52-3)