Tregahornið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Útg. 2001. Vatnslitamyndir eftir Bernd Koberling.

Úr Tregahorninu:

Músarunginn (brot)

Í kvöldsólinni er hann framundan mér á moldartroðningnum og horfir á mig. Ég snarstansa og við horfumst í augu. Mér finnst einkennilegt að svona örsmá augu skuli geta tekið inn heiminn. Því heimurinn er mikill í kvöld; sólin, himinn enn blár, sjór lygn neðan götuslóðans. Augu músarungans spegla brot af himninum og undir sól að sjá er hann lifandi steinvala á stígnum. Svo skríður hann eldsnöggt inn í bendu af fíflablöðum við stíginn og heldur að nú viti enginn hvert hann fór. Ég lýt niður að fíflablöðunum. Upp úr hvirfingu blaðanna standa nokkrir holir stönglar sem mjólkin fordæmda rennur um og svo gulu blómkörfurnar sem snúast og velta eftir sólinni. Og inni í bendunni er músarunginn, í grænu hálfrökkri sem leggst slikjukennt yfir augu hans. Hundaheppni að ég skyldi sjá hann á troðningnum nógu snemma, þó ég væri mestanpart að glápa upp í kvöldsól og himin.
Ég rétti úr mér og það læðist að mér að skammt hér frá sé lítil grasflöt þar sem aldrei kemur fólk og á flötinni miðri séu hús á stærð við eldspýtnastokka, heil þyrping, máluð í jarðlitum. Þetta eru músahús. Þarna búa saman margar mýs, hættar að búa í holum - holurnar eins fjarlægar þeim og hellarnir mönnum.
Hvað sem öðru líður, þá ratar unginn í fíflabendunni vonandi heim í músahúsið sitt. Það væri upplýsandi að vera staddur hjá grasflötinni þar sem bærinn er, í hauströkkri þegar mýs fara í hópum um strengmjóar götur milli húsa og halda næstum ósýnilegum luktum í loppunum, luktum sem ná ekki einusinni að ýta myrkrinu þumlung frá húsunum. Myrkrið leggst yfir músahúsin einsog það ætli að ýta þeim ofan í jörðina.
Í kvöldsólinni, undir heiða himninum, geng ég áfram. Flugvél fer yfir á leið inn til lendingar. Ofan moldarstígsins er kirkjugarðurinn. Ég er sjaldan langt frá kirkjugörðum. Og nú er rigningin fast við stíginn.
Þarna lendir maður, ef guð lofar, hugsa ég upphátt einsog gamla konan og brosi þó kistur og moldarfarg komi í hugann.

(s. 53-55)