Trésmíði í eilífðinni og fleiri sögur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Trésmíði í eilífðinni:

Horn

Meðan verið er að hita kaffið spjalla gömlu mennirnir um yngri mann sem fann hreindýrshorn í Loðmundarfirði og fór með þau suður og lét græða þau á sig og kom árið eftir til að búa í þorpinu hérna, með hornin upp úr höfðinu og spangir gleraugnanna kræktar aftur fyrir greinarnar. Hann settist að í þessu kauptúni og kom sér upp litlum bústofni og drakk með hrútnum sínum hvenær sem færi gafst og ferðir féllu til Seyðisfjarðar. Hrúturinn var ónotalegur með víni og stangaði fólk sem vildi líta inn hjá manninum með hornin. En hann hristi sín horn góðlátlega og brosti að illskunni í hrútnum, hastaði mildilega á hann og hélt svo áfram að drekka, sótti glas handa gestinum þegar skepnan hafði róast, og horn glóðu við himin sjálfan þegar hann kom að dyrum fjárhúskofans með glasið. Svo laut hann fram til að komast inn um dyrnar, og hornin breyttust í loftnetsstengur.

Hann vildi ekki ræða um ágræðsluna, eyddi talinu, fálmaði upp í gleraugun, tók þau gjarnan ofan og fægði, blés og gerði móðu, fægði meira, sagði svo kannski: ,,Það er þægilegt að ná suður-evrópsku stöðvunum í útvarpinu meðan þokan grúfir yfir hér.

Um tíma átti hann nokkrar hænur, en þær urðu skammlífar; komust í gersull eftir að hann var farinn að brugga og hættur að bíða áfengisferða til Seyðisfjarðar. Hann hafði hellt botnfallinu út á grasflötina bak við húsið og hænurnar komu vappandi í glampandi sólskini og tóku að stinga niður goggum á þessum litla bletti. Um kvöldið átti hornamaðurinn engar hænur á lífi.

(46-7)