Turnleikhúsið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1979
Flokkur: 

Úr Turnleikhúsinu:

Hann gekk að glugganum, þessum mikla glervegg, og studdi fingrum á rúðuna einsog hann hyggðist draga inn um fingurgómana til sín nýtt afl úr svörtum lindum næturinnar. Hlaða sig þannig orku að nýju eftir langa einveru, langt ferðalag.
 Það var svo óvænt að geta numið staðar. Síðan hallaði hann enninu að glerinu, og stóð þannig þétt upp við það; með ennið og fingurgómana á glerinu, og lokaði augunum, og reyndi að binda sundurleit slitur úr myndferli sem leiftruðu of hverfult í hug hans til þess að hann væri viðbúinn að knýta með rímgaldri í trausta festi, og lesa sér þannig styrk. 
 Hvað var nú?
 Hvar var hann staddur?
 Var hann kannski geimfari í mikilli flaug á ferð í staðleysum geimsins? Þó var hann ekki þyngdarlaus í þessum sal. Nema enn væri turninn. Nema hann væri enn einhversstaðar í turninum að vaxa inn í himininn.
 Mikið var myrkrið svart úti.
 Úti?
 Það var svo þétt. Það var einsog hann væri inni í efnismiklum sorta. Þrungnu myrkri, heitu og svölu í senn, hugsaði hann: meðan turninn óx. Eða flaugin þaut, og teygðist á fluginu, inn í þessu marghljómandi myrkri, í hljómvíddum sem byðust væru innsigli þagnar rofin þegar turninn hefði teygzt nóg, fangin tónþráin frelsaðist (um sinn), og hin heilaga hljómblekking geimtómsins flæddi inn og laugaði þann sem þannig flaug, í stríðri þrá, sefaði andrá, lét svo sem æva liði sú eilífð, um sinn.
 Við svofelldar hugrenningar hafði hann numið staðar andspænis nóttinni úti, hann fann aftur glerið undir fingrum sínum og undir enninu við það að konan lét glas á hvirfil hans. hverfði honum aftur í þessa stofu; lítið blálýst náttból, heilt og afmarkað sínum veggjum; þar sem einn var öllum þéttari, óræður og læstur, klæddur gleri; glugginn, þar andaði ekkert.
 Þá seildist hann yfir öxlina og tók glasið af höfði sér þegar hann hafði strokið fingunum beran handlegg konunnar fram eftir.
 Nú heyrði hann andardrátt hennar þar sem hún stóð þétt fyrir aftan hann og fór höndum um hann svo hann hafði ekki frið til að drekka úr glasinu eins hægt og hann vildi, og heyra ísmolana klingja, þessar hendur sem reyndu að vekja hann, láta hann lyftast, vaxa, gera hann aftur vængjaðan og flugstinnan, þessa stund þegar lund hans þráði munað hægrar lendingar, hlé; hægstreymi, hugfró.

(s. 146-147)