Túskildingsóperan

Útgefandi: 
Ár: 
1959

Leikrit eftir Bertolt Brecht (Die Dreigroschenoper). Frumsýnt í Iðnó 1959.

Úr Túskildingsóperunni:

Í hjarta Soho heldur stigamaðurinn Mackie Hnífur brúðkaup eitt með Pollý Peachum, dóttur betlarakóngsins.

(Autt hesthús.)

Matthías: (heldur á ljóskeri og beinir skammbyssu inní hesthúsið): Halló, upp með hendurnar ef hér er nokkur!

Macheath: (kemur inn og gnegur yfir þvert sviðið neðanvert): Jæja, er nokkur hér?

Matthías: Ekki sál! Við getum haldið brúðkaupið í ró og næði.

Pollý: (kemur inn í brúðarskarti): En þetta er hesthús!

Mac: Sestu þarna á jötuna augnablik, Pollý.

(Til áheyrenda.)

Í þessu hesthúsi held ég í dag brúðkaup mitt við Polly Peachum, sem hefur fylgt mér af einskærri ást og lofað að deila kjörum mínum framvegis.

Matthías: Margir í Lundúnum munu segja að þetta sem þú gerðir í dag sé það djarfasta sem þú hefur nokkurntíma teið þér fyrir hendur: að tæla einkadóttur Peachums úr föðurhúsum.

Mac: Hver er herra Peachum?

Matthías: Sjálfur mundi hann segja að hann sé aumastur allra í Lundúnum.

Pollý: En þú getur ekki haldið brúðkaupið okkar hér? Þetta er jú barasta ósköp venjulegt hesthús. Þú getur ekki boðið sjálfum prestinum hingað. aukþess eigum við það ekki einusinni. Við ættum ekki að byrja okkar nýja líf með innbroti, Mac. Þetta er fegursti dagurinn í lífi okkar.

Mac: Vina mín, allt sem þú biður um skaltu fá. Þú skalt ekki þurfa að dýfa hendinni í kalt vatn. Innréttingin er á leiðinni.

Matthías: Hér koma húsgögnin.

(Það heyrist í vörubílum sem aka að hesthúsinu. Inn koma Jakob, Róbert, Eddi, Jimmy og Walter með gólfteppi, húsgögn, borðbúnað o.s.frv. Að andartaki liðnu hefur hesthúsinu verið breytt óhóflega skrautlega setustofu.)

Mac: Drasl.

(Mennirnir fimm leggja gjafir sínar á sviðið vinstramegin, óska brúðinni til hamingju og ganga síðan fyrir brúðgumann.)

Jakob: Til hamingju. Í Ginger-stræti 14 var fólk á annrri hæð. Við urðum að svæla það út.