Tvær gamlar konur

Höfundur: 
Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995

Um bókina

Two Old Women eftir Velma Wallis í þýðingu Gyrðis Elíassonar.

Úr Tveimur gömlum konum

Þann dag var það ekki aðeins kuldinn sem lá í loftinu þegar Fólkið safnaðist umhverfis fáa og flöktandi eldana til að hlýða á höfðingjann. Hann var næstum höfði hærri en aðrir menn. Út um hettuop skinnúlpunnar bárust orð hans um frosthörkurnar, erfiða daga framundan og það sem hver og einn yrði að leggja af mörkum til að ættflokkurinn þraukaði veturinn.

Síðan sagði hann skyndilega, hárri og skýrri röddu: “Ráðið og ég höfum komist að niðurstöðu.” Höfðinginn gerði hlé á máli sínu einsog til að safna kröftum fyrir framhaldið. “Við verðum að skilja gömlu konurnar eftir.”

Hann renndi augum snöggt yfir hópinn í leit að viðbrögðum. En hungur og kuldi höfðu sett mark sitt á Fólkið, og það virtist ekki láta tíðindin á sig fá. Ýmsir höfðu búist við þessu, og sumir álitu þetta fyrir bestu. Í þá daga var ekki óþekkt að gamalmenni væru skilin eftir þegar hungur svarf að, þó að í þessum ættflokki væri þetta í fyrsta sinn. Auðnarásýnd landsins virtist krefjast þess að fólkið tæki upp suma af háttum dýranna til að komast af. Á líkan hátt og ungu hraustu úlfarnir útiloka gamlan leiðtoga hópsins, skildi þetta fólk gamalmennin eftir svo það gæti ferðast án trafala.

Eldri konan, Chidzigyaak, átti dóttur og dótturson meðal fólksins. Höfðinginn renndi augum yfir hópinn í leit að þeim, og sá að þau sýndu engin viðbrögð heldur. Honum létti mjög að þessi drungalega tilkynning hafði verið borin fram án þess að kæmi til ókyrrðar, og hann mælti svo fyrir að menn skyldu taka saman föggur sínar þegar í stað. En á meðan gat þessi hugrakki maður ekki fengið sig til að horfast í augu við gömlu konurnar tvær; það var honum um megn.

(s. 11-12)