Tvílýsi : myndir á sýningu

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Tvílýsi:

Tærnar upp úr sjó

Og tærnar sem komu upp úr vatninu, og rufu vatnsborðið, og risu upp úr vatninu. Brutust upp úr sléttu vatnsborðinu, svo stífar einsog tálgaðar úr tré, nei steyptar í plast. Hann sá þetta álengdar, og fyrst vissi hann ekki að þetta var maður, þó sá hann að þetta var maður sem kom upp úr vatninu, upp úr sjónum. Upp úr höfninni. Hann sá tvo menn bisa við hann, og draga hann upp úr vatninu einsog hann væri poki fullur af salti. Mannsöfnuður horfði, rosknir menn og unglingar og strákar. Þeir stóðu þennan bjarta morgun þarna, og þéttastur hópurinn um borð í vélbáti aftur í skut, og horfðu á það einsog leiksýningu. Það gerðist furðu hægt að maðurinn kom upp úr sjónum, svo seinlega; og þegar hann kom allur upp úr vatninu rann skyndilega blóð úr vitum hans, hann sá að rann í tveim taumum niður á hökuna á manninum, og í sjóinn. Þá var honum flotað að bryggju drumbslegum, dreginn á land, og síðar var honum snarað inn í skutbíl lögreglunnar. Það eitt rauf þögnina þegar bílvélin var ræst, og maður við hlið hans stöðvaði með klút tóbakssósuhlaup úr nös, og ræskti sig. Menn fóru ekki að tala saman fyrr en bifreiðin ók burt með líkið. Maður gekk fram á bryggjuna sem hvarf í sjóinn. Hann var með derhúfu í bláköflóttri skyrtu. Þar höfðu þeir borið líkið upp. Hann beygði sig, og skolaði sér um hendur upp úr sjónum. Áhorfendurnir söfnuðust í land úr vélbátnum. Þeir gengu seinlega upp bátabryggjuna. Enginn hávaði. Það heyrðist í ryðspæni í slippnum spölkorn frá. Einhverjir skröfuðu saman. Aðrir bara þögðu. Hurfu. Vélbáturinn hófst aðeins og seig á víxl, á öldu sem ekki sást, einsog vakinn af andardrætti sem var hættur.
(s. 7-8)