Undir dagstjörnu : Athafnasaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000

Úr Undir dagstjörnu

Ástæða þess að við vorum látin skrifa undir fullu nafni var sögð sú, að fangamark nægði ekki til að tryggja lögformlega ábyrgð á skrifum okkar. Meðan á þeirri umræðu stóð hitti ég eittsinn á ganginum fyrir framan lyfturnar Styrmi Gunnarsson, sem þá var einn af leiðarahöfundum Morgunblaðsins. Hann sagði við mig: Mikið áttu gott, Sigurður, að mega skrifa það sem þér býr í brjósti. Ég varð hvumsa við og spurði hvort því væri öðruvísi farið um hann. Vitanlega er því öðruvísi farið, svaraði hann. Hugsaðu þér að bera ábyrgð á skrifum sínum og skoðunum gagnvart öllum lesendum blaðsins sem eru að minnstakosti helmingur þjóðarinnar. Það er þungbær ábyrgð og leyfir manni ekki að skrifa að eigin geðþótta. En þú ert frjáls skoðana þinna og skrifa og skalt meta það að verðleikum.

Ekki er ég alveg viss um að ég hafi skilið til hlítar það sem bjó að baki orðum Styrmis, en mér varð síðarmeir hugsað til þess, að allir þeir hæfu og frísklegu blaðamenn, sem komið hafa að Morgunblaðinu fráþví ég man eftir mér, hafa á undraskömmum tíma glatað vaskleik sínum og snerpu, koðnað niður og orðið litlaus peð á skákborði þess tröllaukna fyrirtækis sem ber öfugnefnið Árvakur. Vafalaust áttu viðamikil húsakynnin sinn þátt í þessari andlegu þrúgun (stór salarkynni hafa veruleg sálræn áhrif eins og þeir Hitler, Mussolini, Stalín og Maó vissu mætavel), en ég hygg að viðhorfið sem Styrmir lýsti hafi verið þyngra á metunum: ópersónulegur og landsföðurlegur bragur blaðsins svipti það þrótti, léttleik og skerpu, dró úr frumkvæði og framtaki blaðamanna með þeim afleiðingum að úr varð svipminnsta, leiðinlegasta og merglausasta stórblað á byggðu bóli. Þetta á ekki bara við um flatneskjulegan fréttaflutning blaðsins, heldur einnig alla umfjöllun um menningarmál og þjóðmál yfirleitt. Til sanns vegar má færa að einu skrautfjaðrir blaðsins á næstliðnum áratugum hafi verið stöku aðsendar greinar eftir pennafæra höfunda útí samfélaginu.

(s. 201-2)