Undir gervitungli : ferðaþættir

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1959
Flokkur: 

Úr Undir gervitungli:

Sá sem kemur heim eftir ferð til Sovétríkjanna rankar stundum við sér á þrífæti völvunnar og grillir í gegnum hinar annarlegu gufur í grandvör andlit spyrjenda sem vilja vita allt af létta um lífið í því landi og fá svar við framtíðargátum. Og í því rofi vex honum kenndin af svo ógnþrunginni ábyrgð sem hljóti að fylgja tilraunum hans að svara mörgum þeim sem spyrja frétta úr því ríki.

Sá sem hér talar er enginn sérfræðingur um hagfræðileg efni, þjóðfélagsmál, því miður hefur hann ekki skúffur fullar af gagnorðum skýrgreiningum hverseina í stafrófsröð til að viðmælandinn haldi að hann hafi fengið svar við spurningu; ýmsir grípa andann og þenja sig á spretti dag sinn á jörðunni unz þeir geispa sinni gagnmerku golu þannig að það virðist aldrei sluma í þeim af því að finna einhverstaðar eyðu, þeir lesa jafnharðan vélfrasana af böndunum sem eru dregin fyrir augum þeirra alla þeirra hundstíð - einu sinni sagði Kjarval; mikil afskaleg vísindi eru að vera manneskja. Svona er nú sumt fólk, segir einhver: það gleypir við hlutunum skoðunarlaust. Mig grunar að ýmsir sem hefur staðið til boða að gista Sovétríkin sér að kostnaðarlausu hafi afþakkað boðið til þess að þurfa ekki að prófa hugmyndir sínar á sviði veruleikans. Og þar með ætla ég ekki að draga úr þeirri staðreynd að til eru þeir sem hefur tekizt að ferðast um Sovétríkin án þess að setja nokkur heimaalin sjónarmið sín í hættu.

Á síðasta voru bauðst mér tækifæri til þess að komast í þessa voðalegu rullu að vera einskonar informationsautomat, sjálfvirk upplýsingavél um Sovétríkin með því að tylla snöggvast fæti þar niður. Undirbúningur var hinn ákjósanlegasti; skipið var eit hið hæggengasta sem völ er á kennt til trölla og flutti 30 hross úr hinu heimsfræga frelsi fjalldala til konfektáts úr höndum þýskra kvikmyndadísa og barna iðnaðarkónga.

(7-8)